Lánleysi Fram ótrúlegt Lánleysi Fram í gær á móti Keflavík var hreint út sagt ótrúlegt. Liðið hreinlega yfirspilaði Keflavík í leiknum og spiluðu glimrandi fínan bolta. Það mátti ekki sjá að liðið væri í fallsæti miðað við leikinn í gær og Framarar óheppnir að hirða ekki öll stigin sem í boði voru. Allavega fengu þeir tækifærin til þess en nýttu þau ekki og geta sjálfum sér um kennt. Tvær vítaspyrnu fóru forgörðum og voru þar Ágúst Gylfason og Þorbjörn Atli Sveinsson að verki. Keflavík komst yfir með marki frá Hauk Inga Guðnasyni eftir undirbúning og aukaspyrnu Zoran Ljubicic. Þorbjörn Atli jafnaði fyrir Fram og Viðar kom þeim yfir. Keflvíkingar fengu síðan vítaspyrnu á 75.mínútu og ólíkt Frömurum náðu þeir að nýta svoleiðis tækifæri, Guðmundur Steinarsson bombaði boltanum upp í þaknetið, óverjandi fyrir Gunna í markinu. Það var allt annað að sjá til Fram í þessum leik heldur en síðustu leikjum í deildinni. Liðið spilaði í varabúningum sínum í leiknum og voru margir leikmenn ekki með réttu númerin. Til dæmis skokkaði Andri Fannar inná í treyju númer 6 merktri Villa Vill. Þá voru Freyr Karlsson og Daði Guðmundsson ekki með réttu númerin. Keflvíkingar voru þó vel merktir og geta þakkað fyrir að ná stigi. Úrslitin 2-2.

Í Kaplakrikanum gerðu FH og Fylkir stórmeistara jafntefli 0-0. Leikurinn var þó nokkuð fjörugur og færi á báða bóga. Það voru ekki ómerkari menn á meðal áhorfenda en bæjarstjóri Latabæjar og Ian Rush. Ég er að bíða eftir því að fá að sjá Erroll McFarlane og Steingrím saman frammi en það gerðist ekki í þessum leik því Steingrímur fór útaf fyrir Trinidad-manninn. Sævar Þór Gíslason fékk besta færi leiksins í seinni hálfleik þegar hann slapp einn á móti Daða FH-markmanni en nýtti ekki færið. Daði stóð sig mjög vel í marki FH.



FH - Fylkir 0-0
Áhorfendur: 2050

Keflavík – Fram 2-2
1-0 Haukur Ingi Guðnason (31)
1-1 Þorbjörn Atli Sveinsson (62)
1-2 Viðar Guðjónsson (71)
2-2 Guðmundur Steinarsson (vsp) (76)
Áhorfendur: 650