Sergio Cragnotti, hinn umdeildi og litríki forseti og aðaleigandi Lazio, tilkynnti á blaðamannafundi í gær (5.júlí) að hann ætli að draga sig út úr knattspyrnuheiminum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þriðjudaginn 4. júlí gerðu 100 meðlimir hörðustu áhangendaklíku liðsins, Lazio Ultras, svívirðilega árás á heimili Cragnotti til að sýna reiði sína vegna sölunnar á Pavel Nedved til Juventus. Lýðurinn umkringdi hús forsetans, kastaði grjóti í það og krotaði svívirðingar um hann á nálæg hús. Cragnotti lýsti því yfir á blaðamannafundinum að þessi framkoma aðdáenda hans eigins liðs hefði fyllt mælinn og hann væri kominn með nóg af fótbolta. Hann bætti þó við að ástæðurnar væru líka aðrar; það væri einfaldlega of kostnaðarsamt að halda í við AC Milan, Juventus, Roma og Internazionale þegar kemur að leikmannakaupum og hann hefði ekki lengur efni á þessum bransa. Þar sem Lazio er skráð á hlutabréfamarkað mun Cragnotti einfaldlega selja öll sín hlutabréf í liðinu og hyggst sinna öðrum viðskiptum héðan í frá.

Þetta er enginn smá missir fyrir liðið. Engum dylst að peningarnir hans Cragnotti eru ástæðan fyrir Scudettoinum 2000 og það verður sjónarsviptir að þessum karakter í Serie A.