Parma virðast aðeins ætla að rétta úr kútnum eftir svaðalega sölu á toppleikmönnum undanfarna daga. Það virðist næsta frágengið að miðvallarleikmaðurinn snjalli frá AS Roma, Hidetoshi Nakata, gangi til liðs við hina gulbláu fyrir $26 milljónir. Nakata sem var orðinn langþreyttur á bekkjarsetu sem varaskeifa Francesco Totti mun eflaust blómstra í aðalhlutverki á miðjunni hjá Parma og er rétt að óska áhangendum liðsins til hamimgju með þennan frábæra leikmann.
Af Parma er það einnig að frétta að liðið undirbýr kaup á enska markverðinum David James, en það mál mun enn vera á byrjunarstigi. Það er vonandi að Parma styrki sig aðeins fyrir næsta haust - liðið hefur jafnan spilað skemmtilegan bolta og væri synd að sjá þá í ströggli, nú þegar þeir hafa með harðfylgi áunnið sér sæti í Meistaradeildinni.