Buffon endanlega farinn og fleiri fréttir Það er orðið (því miður) endanlega staðfest að Juve hefur gengið frá kaupum á markverði Parma, Gianlugi Buffon. Eitthvað virðist kaupverðið vera á reiki, en nefndar hafa verið tölur eins og 65 milljónir dollara og 30 milljónir punda. Buffon vildi koma þökkum á framfæri við eigendur Parma, fyrst þakka þeim fyrir árin sem hann hefur eytt hjá Parma og einnig fyrir að leifa honum að fara, en hann telur þessa sölu vera stórt skref uppá við.

Nú er talið mjög líklegt að Parma kaupi Sebastian Frey frá Inter og Inter kaupi síðan Toldo frá Fiorentina, eða jafnvel Canizares frá Valencia. Enn eru þær vangaveltur í gangi hvort Van Der Sar fari til Barcelona en ég veit nú ekki hvort hann eigi eitthvað erindi þangað…



Nánast ekkert virðist geta hindrað það að Zidane fari til Real Madrid en samningaviðræður Juve og Real ganga víst mjög vel, og einnig mun Zidane sjálfur vera mjög spenntur fyrir Real Madrid. Allt virðist benda til þess að Juve ætli sér að kaupa Nedved í staðinn (svo er Edgar Davids líka í banni!) en hann flaug til Ítalíu ásamt umboðsmanni sínum í flugvél sem er í eigu Juve! Lazio eru víst að skrapa saman aurum fyrir Rivaldo en hann hefur sjálfur neitað því að hann sé á leiðinni til Lazio.



Veron kemur til Manchester borgar á morgunn til að skrifa undir samninga og gangast undir læknisskoðun. Töluvert er síðan að United og Lazio komust að samkomulagi en lengri tíma hefur tekið að semja við leikmanninn sjálfan. Amoroso, leikmaður Parma er genginn til liðs við Dortmund, kaupverðið er 5 milljónir punda en einnig kemur Evanilson til Parma í kaupbæti. Amoroso sem hafði blómstrað með Udinese stóð sig ekki sem skildi með Parma og sáu þeir sér þann einn kost nauðugan að losa sig við hann.



Það er sorglegt hvernig virðist vera að fara fyrir Parma, Thuram farinn, Buffon og Amoroso(sem reyndar var ekki að gera neinar rósir). Akkúrat þegar lífið var aftur farið að brosa við okkur Parma mönnum virðist eiga að gera útaf við liðið á einu bretti. Þó er ekki öll nótt úti enn, og við skulum bíða og sjá hvernig gengur á næsta tímabili(ég er ekkert alltof bjartsýnn, því miður)


Ps. Allar þessar fréttir eru ekkert endilega hárréttar en ég hef mínar heimildir frá traustum heimildarmönnum og ég veit ekki betur en að þetta sé allt saman 110%
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _