Kynþáttafordómar í boltanum Kynþáttafordómar í íslenska boltanum hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Þar sem ég er Framari þá man ég vel eftir svörtum Hollending sem var hjá okkur fyrir tveimur árum, Marcel Oerlemans. Hann fékk að kenna á fordómunum í lokaleik deildarinnar það ár gegn Víkingi. Í því tilfelli komu hróp og niðurlægingar frá einum af leikmanni Víkings. Marcel missti á endanum stjórn á skapi sínu og var rekinn út af með rautt spjald. Nú fyrir stuttu kom upp svipað mál nema þá var einn stuðningsmaður KR að verki. Í Málinu á Skjá 1 í síðustu viku beindi KR-ingurinn Mörður Árnason athygli áhugamanna um fótbolta að kynþáttafordómum á knattspyrnuleikjum.



Erindi Marðar var þetta (af www.strik.is):

Það var á vellinum um daginn, á KR-vellinum auðvitað – nei, ég ætla alveg að sleppa því að minnast á stöðu okkar í deildinni eða tala um hinn frábæra knattspyrnumann Pétur Pétursson nema þakka honum fyrir góð störf – þetta var sumsé á KR-vellinum um daginn, gegn Fylki, og við stöndum þarna í stúkunni í seinni hálfleik orðnir nokkuð þreyttir á lánleysi okkar manna, og í þessum markalausa og sumsé lánlausa leik er lánlausastur allra KR-ingurinn Moussa Dagnago, hár og knár vesturafrískur Frakki sem Pétur og Winnie náðu í frá Skotlandi í vor, og hann fær boltann eða vinnur boltann hvað eftir annað á hættulegum stað en missir hann alltaf aftur eða skýtur framhjá eða skallar yfir og tekst aldrei að klára dæmið hvað sem hann reynir. Og það eru auðvitað almenn hvatningarhróp og vonbrigðastunur en einn er samt ákafastur á okkar stað í stúkunni, þrekvaxinn og feikilega raddsterkur berserkur sem virðist vera einn á leiknum núna en var sennilega hér áður í svolitlum hópi sem í Vesturbænum gengur undir nafninu „múrararnir“ og þóttu fyrir nokkrum árum vera orðnir nokkuð illskeyttir og orðljótir og undir áhrifum að stjórn knattspyrnudeildar KR tók sig til – segir sagan – og dreif múrarana uppá Vog, alla á einu bretti – hvar þessi fýr á Fylkisleiknum var staddur í sporunum tólf er ekki alveg ljóst – en allavega fékk hann Moussa Dagnago snemma á heilann og byrjar í seinni hálfleiknum að hrópa hann niður: –Takiði þennan Moussa útaf! – Burt með flækjufótinn! – og þótt það sé ekki til siðs í stúkunni að veitast að einstökum leikmönnum Knattspyrnufélags Reykjavíkur þá er auðvitað tjáningarfrelsi í landinu, og múrarinn heldur áfram að hafa svarta Fransmanninn á hornum sér en fer heldur betur að bæta í: – Pétur, útaf með þennan negraræfil! – þrumandi og sargandi rödd sem hlýtur að berast um allan völlinn; og síðan kemur sirka þetta: – Hvað á að láta þennan Sambó eyðileggja mikið fyrir okkur? og svo auðvitað það sem var fyrirsjáanlegt: Bara taka þennan apa og senda hann aftur uppí trén!

Maður er ýmsu vanur frá æstum vallargestum þótt þeir einbeiti sér yfirleitt að leikmönnum gestanna og þó allra helst náttúrlega að veslings dómaranum – en þegar ég rölti heim eftir leikinn var það ekki þetta orðbragð í sjálfu sér sem truflaði mig og sat í mér heldur viðbrögð okkar hinna sem stóðum þarna í stúkunni: Hvernig leið okkur? – Jú, allir skömmuðust sín fyrir gaurinn og vildu að hann hætti sem fyrst og steinhéldi svo kjafti. Og hvað gerðum við í málinu? – Ekki neitt. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Sjálfsagt hefur það flotið um hjá hverjum og einum einhversstaðar í sálardjúpinu að þetta væri ekki mitt vandamál, ég væri þarna til að horfa á leikinn og styðja mitt lið, og ég gæti ekkert farið að standa í að stofna til deilna og kannski illinda við svona mann, og kannski héldi hann ekki áfram með þessi læti, og allavega væri óþægilegt að fara að skera sig úr þarna í miðri stúkunni, og það hlyti einhver annar að sjá um að þagga niðri í honum. En gaurinn semsé hélt áfram og enginn gerði neitt og því miður náði Moussa ekki marki í tveimur dauðafærum undir lokin til að leikurinn sæi einhvernveginn um það að fullnægja réttlætinu sem við í stúkunni kinokuðum okkur sjálfir við.

Hér var ekki verið að berja svarta eða gula nýbúaunglinga í látum niðri í bæ, og þarna var örugglega enginn úr þessum bjánalega nýnasistaflokki; það voru engar rúður brotnar, ekkert blóð, engin brennd hús, hvað þá pogrom Ku Klux Klan apartheid fjöldanauðganir þjóðarmorð. Þetta var bara ósköp hversdagslegur og venjulegur rasismi þarna í stúkunni við Kaplaskjólsveginn. Og við sem þarna vorum og gerðum ekkert, við tókum einmitt þátt í þessum rasisma hversdagslífsins á Íslandi, vorum samsek múraranum með munninn.

Við höfum margt að læra Íslendingar á þeim tímum sem eru kenndir við fjölmenningu, og það á ekki að vera neitt sérlega erfitt að læra, við getum lært af grannþjóðum okkar sem stóðu í sömu sporum fyrir tíu, tuttugu, þrjátíu árum; það er ekkert nýtt sem hér er að gerast, ekkert óvænt og ekkert sem við ekki ákváðum sjálfir.

Og við verðum að gjöra svo vel að fara að læra, til þess að afstýra ekki aðeins opinberri mismunun heldur líka hinum hversdagslega rasisma. Við verðum að leggja af þá bjánalegu forræðishyggju sem birtist til dæmis í frumvarpi Sólveigar Pétursdóttur um að skylda alla nýbúa í sérstakt íslenskupróf. Eða þá mannúðarskipan á ábyrgð Páls Péturssonar að útlendingar með atvinnuleyfi séu í vistarbandi og stundum næstum þrælahaldi hjá einum tilteknum atvinnurekanda, hvort sem sá er fiskverkandi vestur á fjörðum eða klámbúllustjóri í höfuðborginni. Sambúðarvandi kynþátta á Íslandi er auðvitað ekki einfalt mál en sem betur fer eru sumar lausnirnar einfaldar. Þegar ég datt inn á þing nokkra daga í vetur lagði ég til að allir útlendingar fengju að kjósa í sveitarstjórn og ekki bara Norðurlandamenn. Þetta kostar ekkert að samþykkja, mundi bæta réttindi fjölmargra samborgara okkar og vekja stjórnmálaflokkana til ábyrgðar.

Við erum satt að segja frumstæð í þessum efnum, vanþroskuð. Það kemur líka fram í undarlegum varnartilburðum þeirra sem vilja vel og reyna að gera gott – en virðast halda að glæpurinn liggi öðrum þræði í sjálfum hinum íslenska uppruna, menningu okkar, siðum og öllu sköpulagi, það sé jafnvel 111. framkoma við nýbúa og útlent fólk að tala íslensku á Íslandi, nema þá helst sem allra versta íslensku. Auðvitað verður að laga samfélagið að nýjum tímum en hitt er beinlínis hættulegt að gleyma sér í svona heimóttarminnimáttardellu – við hljótum að gera ráð fyrir því að það fólk sem hingað kemur til lífs og starfa komi hingað einmitt vegna þess að hér stendur Ísland með sína menningu og siði og tungumál; um leið og við lögum okkur sem sjálfsagt er að upprennandi fjölmenningartímum gangast nýir Íslendingar undir það að verða burðugir og ábyrgir þátttakendur í samfélaginu sem fyrir er, með fullum réttindum og með öllum skyldum. Þetta þurfum við líka að læra.

En kannski er einmitt allra brýnast að læra að láta ekki hugsunarleysi eða uppburðarleysi koma sér til að taka þátt í rasisma daglega lífsins. Með því að þegja. Með því að gera ekki neitt. Og næst þegar múrarinn byrjar að þenja sig, á KR-vellinum eða á Hlíðarenda eða uppá Skaga eða útí Eyjum – þá svörum við fyrir okkur og fyrir þann Moussa Dagnago sem um er að ræða hverju sinni: Svona segir maður ekki um KR-inga eða Valsara eða Skagamenn; svona komum við ekki fram við náunga okkar.

Du courage, Moussa, ça va s'arranger!



Rætt var um þetta mál á Spjallsvæði KR-klúbbsins á Netinu:

Posted by Kúltúra:
Menn ættu að varast að reyna breyta vallarmenningunni. Þetta er hluti af leiknum. Skilgreiningar á fordómum eru komnar út í öfgar. Eins og t.d. að segja að “stelpur séu lélegar í fótbolta” er talin kynferðisleg áreytni!!! Hvað myndu menningarpostularnir í dag hafa sagt um Egil Rakara, sem oft “bjargaði” hundleiðinlegum leikjum með sínum frábæru fordómafrösum? Bæn mín til sjálfskipaðra menningarvælukjóa er: Látið fótboltann í friði

Posted by FIDO:
Varast að breyta vallarmenningunni,“ ja þú segir nokkuð. Hefði þá ekki átt að leyfa mönnum að tækla aftan frá áfram og reyna að valda sem flestum slysum á vellinum lýðnum til skemmtunar?
Það er til nokkuð sem að kallast andlegt ofbeldi og það er jafn slæmt, ef ekki verra en það líkamlega.
Burt með fordómana!!

Posted by ahaaaa:
Fólk má ekki orðið opna á sér munninn lengur nema það sé stimplað rasistar. Hvað er að?

Posted by Efins:
Skilgreining á fordómum komin út í öfgar, segirðu. ”Apann upp í tré“ og ”Útaf með negra-helvítið??? Eru þetta ekki hreinir og klárir fordómar en ekki eitthvert skilgreiningaratriði? Þessir aðilar sem létu þetta út úr sér eru helv…. rasistar og svona menn á að útiloka frá leikjum.

(Þeir sem ræddu þetta mál á KR-spjallinu þurfa ekki að vera KR-ingar)



Ég er alfarið á móti þessum kynþáttafordómum. Ég er samt alls ekki að stimpla KR-inga sem kynþáttahatara, í erindi Marðar kemur fram að EINN KR-ingur hrópaði þessar skammir. Þessi hugsunarháttur finnst víða, hvort sem fólk styður Fram, KR eða Nökkva! KSÍ ætlar að gera eitthvað í þessu máli eins og brýn þörf er á:



Af www.ksi.is:

Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) og Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hafa á síðustu misserum ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna atvika á vettvangi knattspyrnunnar þar sem um er að ræða kynþáttafordóma.

Því miður hafa komið upp atvik hér á landi sem flokkast undir kynþáttafordóma. Slíkt er í algjörri andstæðu við stefnu KSÍ og ber að harma.

Í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót segir:

Félög, iðkendur, forystumenn og aðrir skulu jafnan sýna drengskap og forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á íþróttinni og koma fram af hollustu, heiðarleika og sönnum íþróttaanda. Þeir sem taka þátt í starfi knattspyrnuhreyfingarinnar skulu leitast við að gera ekkert það sem til vanvirðu má telja fyrir íþróttina.

Sérhvert félag er ábyrgt fyrir framkomu leikmanna, forráðamanna, félagsmanna og stuðningsmanna sinna og allra þeirra sem hafa hlutverk á vegum þess í tengslum við kappleik.

KSÍ vill minna aðildarfélög sín á að halda vöku sinni og gæta þess að íslensk knattspyrna verði aldrei vettvangur fyrir fordóma eða misrétti.



Þrátt fyrir að Moussa Dagnogo hafi ekki verið að sýna góðan leik fyrir KR er engin ástæða til að kalla hann apa eða negra. Fólk má hafa skoðanir en fordómar eru af hinu slæma.

Þessa grein tók ég saman af hinum ymsu vefsíðum ásamt tjáningu á minni eigin skoðun. Tekið af:
www.kr.is
www.strik.is
www.ksi.is


E.s. Nú er ég að fara á leik Fram og KR og ég ætla rétt að vona að engin svona mál komi upp þar!