Dómarinn til liðs við KR! Fyrirsögnin á þessari grein er mjög undarleg, en sönn! KR-ingar fengu nefnilega óvæntan liðsstyrk í Vesturbænum í gær á móti Breiðablik. Garðar Örn Hinriksson dómari slóst í lið með KR og dæmdi eins og vitlaus maður! Leikurinn byrjaði af miklum krafti og Blikar fengu óskabyrjun eftir sjö mínútna leik þegar Kristján nokkur Brooks skallaði í netið 0-1, Kristján slapp síðan í gegnum vörn KR á 15.mínútu en skaut framhjá. Á 36.mínútu byrjaði svo söngfuglinn Garðar Örn að sýna hvers hann er megnugur! Hann dæmdi mjög umdeilda vítaspyrnu þegar Einar Þór Daníelsson féll í vítateignum og Gummi Ben tók spyrnuna og skoraði af öryggi 1-1. Þorsteinn Sveinsson fékk svo að líta annað gula spjald sitt og þannig það rauða á 68.mínútu fyrir mjög saklaust brot á Andy Roddie og Blikar orðnir einum færri. Ekki átti það eftir að batna fyrir gestina því fjórum mínútum síðar var Guðmundur Örn Guðmundsson rekinn útaf fyrir að reka fótinn óvart í Roddie. Dómur sem kom öllum á óvart og má eiginlega segja að síðustu tuttugu mínúturnar hafi KR-ingar verið tólf gegn níu blikum. Hinn nýji þjálfari KR, David Winnie, gerði engar breytingar á taktík liðsins þrátt fyrir að vera tveimur (þremur) fleirri og hélt áfram að spila með fjögurra manna vörn! Undarlegt! En níu blikum tókst að verja stigið og úrslitin 1-1. Fjögur gul spjöld flugu á loft í leiknum og fengu gestirnir þau öll, kemur það ekki á óvart miðað við framgöngu Garðars dómara. Þegar heimamenn gengu af velli fengu þeir “púúú” frá áhorfendum sem þeir áttu skilið, svo einfalt er það!

Nýliðar Vals halda áfram að blása á allar hrakspár og gerðu jafntefli í Keflavík í gær. Kristinn Lárusson kom Val yfir eftir tuttugu mínútur þegar Keflvíkingar voru sofandi í vörninni og sáu ekki sendingu frá Sigurbirni Hreiðarssyn. Kristinn kom boltanum framhjá Gunnleifi í markinu, sem stóð sig reyndar mjög vel í leiknum. Á 41.mínútu jafnaði Magnús Þorsteinsson með þrumuskoti eftir sendingu frá Zoran Ljubicic. Valsmenn fengu fjölmörg færi í seinni hálfleik en Gunnleifur stóð sig vel í markinu og leikurinn endaði 1-1. Besti maður vallarins var Matthías Guðmundsson en hann lék einnig mjög vel í stórsigri Vals á KR.



KR – Breiðablik 1-1
0-1 Kristján Brooks (7)
1-1 Guðmundur Benediktsson (v) (36)
RAUTT: Þorsteinn Sveinsson, Breiðablik (68)
RAUTT: Guðmundur Örn Guðmundsson, Breiðablik (72)

Keflavík – Valur 1-1
0-1 Kristinn Lárusson (18)
1-1 Magnús Þorsteinsson (41)