Unglingarnir til ÍBV og Valur rekur Stanici Þeir Lewis Neal og Marc Goodfellow komu til ÍBV í gær samkvæmt www.ibv.is. Um tíma leit út að þessir strákar kæmu alls ekki til ÍBV eins og um hafði verið samið. Samkvæmt heimildum sem berast að utan þá eiga þessir strákar að styrkja leikmannahóp ÍBV mikið. Neal er sókndjarfur miðjumaður en Goodfellow er sóknarmaður og Guðjón Þórðarson spilaði honum nokkuð oft í liði sínu í vetur en hann kom þó oftast inn á sem varamaður. Ekki er vitað hvort þeir verði tilbúnir með ÍBV í leiknum gegn Fylki í Árbænum næstkomandi miðvikudag en þó er það möguleiki.

Valur ákvað um helgina að leysa rúmenska knattspyrnumanninn Constantin Stanici undan samningi við félagið. Rúmeninn náði ekki að heilla Valsmenn á þeim stutta tíma sem hann var hjá félaginu. Hann fékk að spreyta sig í tveimur leikjum en ekkert stórkostlegt. Ekki hafa Valsmenn efni á að vera með svo dýran leikmann á bekknum og þar sem þjálfarinn sá ekki fyrir sér að tefla Stanici fram í byrjunarliðinu á næstunni var sú ákvörðun tekin að láta leikmanninn fara. Á sama tíma og Stanici yfirgefur herbúðir Vals fá Valsmenn nýjan leikmann í vikunni. Sá er Jón Gunnar Gunnarsson, sem leikið hefur með FH-ingum undanfarin ár. Jón er 24 ára gamall miðju- og sóknarmaður sem leikið hefur um 80 leiki fyrir FH í 1. deild og skorað 16 mörk. Af mbl.is.