Valsmenn báru sigurorð af KR, 4-2, á Hlíðarenda í 6. umferð Símadeildar karla í kvöld. Það var Sigurður Sæberg Þorsteinsson sem skoraði fyrsta markið fyrir Val á 11. mínútu eftir góðan undirbúning Geirs Brynjólfssonar og Matthísar Guðmundssonar. Geir Brynjólfsson skoraði síðan annað mark Valsmanna á 26. mínútu með góðu skoti frá vítateig. Kristján Finnbogason, markvörður KR-inga, fékk rautt spjald á 35. mínútu fyrir að brjóta gróflega á Kristni Lárussyni utan vítateigs. Úr aukaspyrnunni skoraði síðan Sigurbjörn Hreiðarsson þriðja mark Valsmanna. Á 57. mínútu bætti síðan Matthías Guðmundsson við fjórða markinu fyrir Valsmenn. Á 81. mínútu minnkaði Sigurvin Ólafsson muninn fyrir KR-inga með skalla eftir aukaspyrnu Guðmundar Benediktssonar. Þorsteinn Jónsson skoraði annað mark KR-inga á 86. mínútu með skalla. Einar Þór Daníelsson gat síðan minnkað muninn í 4-3 undir lokinn en Þórður Þórðarson varði vítaspyrnu hans. Valsmenn eru nú í fjórða sæti deildarinnar með 10 stig en KR-ingar í því áttunda með sjö stig en þeir hafa leikið einum leik fleira en önnur lið deildarinnar.

[tekið af visir.is]