Sigrar hjá Grindavík og FH Lokaleikur fimmtu umferðar fór fram í gærkveldi. Grindavík tók á móti ÍBV í fyrsta deildarleiknum á nýjum og stórglæsilegum velli þeirra. Nokkuð hvasst var meðan á leiknum stóð en þrátt fyrir það lögðu uþb. 900 manns leið sína á völlinn. Grétar Hjartarsson er allur að komast í gang og hann skoraði tvö fyrstu mörk leiksins. Besti maður vallarins, Sinisa Kekic, skoraði síðan þriðja mark heimamanna og greinilegt að Grindavík myndi hirða öll stigin. Albert Sævarsson stóð sig vel í markinu þrátt fyrir smá mistök í lokin þegar Tómas Ingi hirti af honum knöttinn og gaf á Gunnar Heiðar sem skoraði, nýkominn inná sem varamaður. Öruggur sigur hjá Grindavík 3-1.

Á Þriðjudagskvöldið léku nýliðarnir í deildinni, FH og Valur. Það var ekki mikið um marktækifæri í leiknum en þau sem komu voru flest hjá heimamönnum í Hafnarfirðinum. Þegar rúmur hálftími var liðinn stökk Baldur Bett upp í skallaeinvígi sem hann vann. Atli Viðar Björnsson fékk boltann, lék upp að endamörkum og negldi fyrir markið. Boltinn fór framhjá Þórði í markinu og eina mark leiksins staðreynd. Þórður stóð sig þó vel í markinu. Þessi 1-0 sigur FH var mjög mikilvægur fyrir baráttu þeirra í Símadeildinni



FH – Valur 1-0
1-0 Atli Viðar Björnsson (34)

Grindavík – ÍBV 3-1
1-0 Grétar Hjartarsson (25)
2-0 Grétar Hjartarsson (57)
3-0 Sinisa Kekic (66)
3-1 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (84)



Íslandsmeistarar KR taka á móti Fylki í kvöld á heimavelli sínum í Frostaskjóli kl.20, en þessi lið börðust um meistaratitilinn allt til loka Íslandsmótsins í fyrra. Leikurinn er hluti af 10. umferð í Símadeild karla sem verður leikin um miðjan júlí en þessum leik var flýtt vegna þátttöku beggja liða í Evrópukeppni á þeim tíma. Leikurinn verður í beinni á Sýn.