Komið með tjakk, Arsenal er búið að opna budduna! Arsenal eru búnir að kaupa sinn annan leikmann á stuttum tíma, Giovanni Van Bronckhorst. Hann kemur frá Rangers og kostaði 8,5 milljónir punda. Hann hefur spilað 21 landsleik fyrir Holland. Gio virðist vera í skýjunum yfir þessum vistaskiptum, hann er þegar byrjaður að spá Arsenal titlinum á næsta ári og hlakkar til að spila með Vieira á miðjunni og svo einni af sínum æskuhetjum, Dennis Bergkamp.

Ég persónulega er mjög ánægður með þessi kaup, hann er með virkilega góðan vinstri fót, góðar sendingar, sterkur tæklari, snjall í föstum leikatriðum og getur vel skotið af löngu færi eins og hann hefur sýnt í meistaradeildinni með Rangers. Hann kostaði alls ekki mikið, miðað hvað sumir leikmenn eru að fara á í dag (Lampard 11m, 1-2 landsleikir). Hann ætti að henta vel með Vieira á miðjunni og svo getur hann líka leyst af sem vinstri bakvörður, ekki að þess þurfi þó. Svo má ekki gleyma því að að Arsenal hefur Edu sem á eftir að koma sterkur inn á þessu tímabili, þannig að Arsenal eru komnir með góða breidd á miðjunni og ég vona að við þurfum aldrei sjá Grimandi þar aftur.

Hann er ekki enn búinn að fá númer hjá Arsenal sem er skrýtið því venjulega fá menn númer strax, kannski er verið að bíða eftir að annað númer losni, t.d. 11 eða 25?

Ég vona samt að eyðslu Arsenal sé ekki lokið í sumar, við þurfum að fá markvörð, spurning hvort að kaupin á Dudek séu farin út um þúfur, þetta karp um verðið á honum er búið að standa heillengi yfir. Það eru ýmsar fréttir sem benda til þess að Arsenal hafi áhuga Hedman en ég vona að þær séu ekki sannar, maður sem kemst ekki í liðið hjá Coventry hefur ekkert að gera hjá Arsenal. Einhvers staðar sá ég að Edwin Van Der Sar væri til sölu fyrir 6 milljónir punda, ef það er satt þá skil ég ekki afhverju Arsenal kaupir hann ekki, að fá hann á 6 milljónir væri algjört rán.

Við þurfum líka að fá miðvörð, það bendir flest til þess að Sol fari til Barca fyrst að þeir komust í meistaradeildina, svo ætla þeir víst að bjóða honum einhvern svaka samning, 150.000 pund á viku sem er náttúrulega fáránlegt ef satt reynist, hann er ekki það góður að hann eigi að vera hæstlaunaðasti leikmaður heims.

Svo er það loks hægri bakvörður sem Arsenal þarf, annaðhvort ætti Wenger að setja Lauren í hægri bakvörðinn eða kaupa nýjan, Dixon veldur þessu ekki lengur. Talað er um að Arsenal hafi einhvern áhuga á Geremi hjá Real Madrid, maður hefur kannski ekki séð nógu mikið af honum til að geta dæmt um ágæti hans, Salgado hefur að mestu haldið honum fyrir aftan sig hjá Real.
jogi - smarter than the average bear