Góðan daginn ágætu hugarar.

Það sem ég er búinn að vera að velta fyrir mér undanfarið eru áhrif peninga á knattspyrnu og aðrar íþróttagreinar. Að mínu mati er það algert rugl að leikmenn séu að fá margar milljónir á viku fyrir það eitt að spila knattspyrnu með bestu liðum heims. Mér finnst það líka rugl að lið eyði jafn miklum peningum í leikmenn og þau gera. Að kaupa leikmenn fyrir yfir 13 milljarða, eins og Chelsea, liðið mitt frá 6 ára aldri, gerði í fyrra er auðvitað bara kjaftæði. Fyrir 10-15 árum voru bestu leikmenn í heimi með kannski 500 þúsund uppí 2 milljónir á viku, sem að þætti hrikalega lágt núna. Steven Gerrard samdi við Liverpool og er með eitthvað um 12 milljónir á viku samkvæmt nýja samningnum. Líka þegar að hann er í sumarfríi. Þetta á við um flesta toppleikmenn í heiminum í dag. Ætli Pele hafi ekki verið mjög sáttur með 12 milljónir á ári?

Nú er fótbolti ekki lengur um að hafa best spilandi liðið og að spila skemmtilegan fótbolta. Hann snýst um að hafa bestu einstaklingana, bestu fjármálastjórana og að eiga sem flesta stuðningsmenn í Asíu til að kaupa treyjur og aðra muni merkta sínu félagi.

Er þetta virkilega jákvæð þróun fyrir fótboltann, að stóru liðin kaupi alla unga leikmenn sem að hafa einhvern snefil af hæfileikum frá litlum liðum þannig að kannski 3-5 lið í hverri toppdeild séu klassa ofar en hin liðin í deildinni og að minni liðin eigi engan séns á titlum.

Ég veit ekki með ykkur.. en mér þykir þetta ekkert sniðugt.