Íslenskir knattspyrnudómarar Þeir eru vissulega nauðsynlegir. Ég vona að það ætli sér enginn að mótmæla þeirri staðreynd. Dómararnir sjá um að leikurinn fari ekki úr böndunum, að leikmenn spili eftir reglum, og reyna eftir fremsta megni að dæma leikinn í hlutleysi svo leikurinn verði sem sanngjarnastur. En því miður, eins og þeir sem fylgjast með knattspyrnu vita, eru þeir aðeins mannlegir.


Fyrir þá sem ekki vita, skal ég byrja á því að útskýra hvernig þetta gengur fyrir sig í íslenskri knattspyrnu. Landsdómarar KSÍ, eru flokkaðir í A-, B- og C-dómara eftir styrkleika. Þetta eru dómararnir sem dæma m.a.í 1. deild karla, úrvalsdeild kvenna og aðalkeppni bikarkeppni karla og kvenna, oft er miðað við 1. deild karla fyrir B-dómara og Landsbankadeild kvenna og 2. deild karla fyrir C-dómara (þetta er þó alls ekki algilt).

A-dómarar sjá svo um að mestu leyti um úrvalsdeild karla, ásamt svokölluðum A-aðstoðardómurum, sem sérhæfa sig í að vera aðstoðardómarar og “flauta” aldrei, eins og þeir kalla það í bransanum. A-dómarar eru 11 talsins í ár, auk fáeinna A-aðstoðadómara. Alls eru ABC-dómarar og aðstoðardómarar 46 þetta árið. Úr röðum A-dómara koma svo FIFA-dómarar, en ég er ekki alveg viss með FIFA-aðstoðardómara. Ég held að þeir sérhæfi sig að mestu í því. Ég er að spá í að sleppa eftirlitsmönnum, er ekki alveg nógu fróð um þá eins og stendur.


Sumarið 2004 voru tveir dómarar með áberandi hæstu meðaleinkunnina frá Morgunblaðinu og DV, Ólafur Ragnarsson sem dæmir fyrir Hamar fékk 4,13/6 og Kristinn Jakobsson sem dæmir fyrir KR fékk 4,12/6. Garðar Örn Hinriksson, Þrótti var svo kjörinn besti dómarinn af leikmönnum úrvalsdeildar karla og hlaut þá viðurkenningu í fyrsta skipti.


Þá er það komið á hreint, fyrir þá sem ekki vissu.


Þessir dómarar, eins og þið sjáið eflaust, dæma fyrir hönd síns félags, sem getur verið allt frá FH og KR til Árroðans og Reynis Árskógsströnd. B- og C-dómarar, ásamt ungum og óreyndum, sjá svo um 3. deild, 2. flokk og fleira, oftar en ekki á leikjum með sínu eigin félagi. 3. deildar heimalið sér nefnilega um að redda dómurum, og þá munar ekki öllu hvort dómarinn er formaður félagsins eða ekki. Oft er líka ekki að óþörfu verið að senda menn að norðan suður til að dæma einn leik og öfugt, ef ekki er um stórleik og A-dómara að ræða.


Nú hneykslast kannski margir á styrkleika dómara sem settir eru í kvennaleiki. Þar er ég að mörgu leyti sammála, efstu kvennaliðin ættu að eiga rétt á almennilegri dómgæslu rétt eins og karlarnir. En B-dómarar dæma líka oft í Landsbankadeild kvenna, og jafnvel eru A-aðstoðardómarar þeim við hlið í stórum leikjum. Málið er að hérna kemur pínu hroki í ljós hjá dómurum landsins, því samkvæmt mínum heimildum eru A-dómarar stundum beðnir að dæma kvennaleiki, en þeir bara hafna yfirleitt. Hreinskilnislega finnst þeim yfirleitt bara leiðinlegt að dæma þessa leiki (og þetta segir fullgildur landsdómari mér).

Nú hef ég heyrt talað um þennan svokallaða “úrslitaleik” milli Vals og Breiðabliks kvennaflokks. Fyrir þá sem ekki vita endaði hann 1-2, Breiðabliki í hag, og eru þær með fullt hús stiga eftir 8 leiki og hafa þetta nokkurn veginn í hendi sér. Þennan leik, á milli toppliða Landsbankadeildar kvenna, dæmdi B-dómari, að nafni Marinó Þorsteinsson. Þá hneyksluðust sumir dómarar í því að maðurinn væri að fara suður til að dæma kvennaleik, af öllu! En hann dæmir einmitt fyrir félag sem kallast Reynir Á. og er rétt norðan við Akureyri.

Það mætti kannski kallast smá hroki, en nú skilst mér að þessi maður hafi dæmt þennan leik af heiðarleika og staðfestu, og fórst það vel úr hendi. Síðan heyri ég í gamla Hermanni Gunnarssyni í Íslandi í bítið, talandi um dómgæsluna í þessum leik, og nefnir þá einkum sigurmark Breiðabliks, sem var rangstöðulykt af, en sjónarhornið sem fréttirnar hafa ættu flestir að sjá er út í hött og ekki hægt að dæma af. Hann talaði um að topplið kvenna ættu líka að hafa almennilega dómara – ég get nú sagt ykkur það á maðurinn sem reisti ekki flaggið við þetta tækifæri, var A-aðstoðardómari. Ég get ekki betur séð að þetta hafi verið vel dæmdur leikur, og heyrði ég á einni Breiðabliksstúlku sem lét hafa eftir sér: “Loksins að maður fær almennilegan dómara.”


Við könnumst öll við þá tilfinningu hversu auðvelt það er að kenna dómaranum um þegar illa fer, og vissulega eru stundir þar sem hann á það skilið. Ég mæli þó með að hafa í huga að þessir dómarar eru að reyna að gera sitt besta til að halda leiknum skemmtilegum og sanngjörnum, enda græða þeir sjálfir lítið á því að klúðra leik eða dæma illa, þeir komast ekki jafn auðveldlega upp með það og margir halda. En eins og ég sagði áður, þegar upp er staðið eru þeir bara mannlegir og gera mistök. Að mínu eru þetta skemmtilegir kallar upp til hópa, svolítið skrýtnir á köflum en það þarf harðan haus í djobbið.


Ég vil taka fram að ég er alls ekki löggiltur dómari sjálf, hef mestalagi dæmt í 6.- og 7.-flokki! Ég hef heldur aldrei spilað í meistaradeild og hef ekki neina menntun á þessu sviði. Þetta eru einungis mínar vangaveltur, skoðanir og reynsla, utan við staðreyndir sem ég fékk á heimasíðu KSÍ (http://www.ksi.is/gamalt/Frettir/Tengifrettir2004/abc_domarar_2005_frett.htm) og í bókinni Íslensk knattspyrna 2004 sem tilheyrir Víði Sigurðssyni og er gefin út af Tindi bókaútgáfu.

Ég vona að þetta hafi reynst mörgum fróðlegt og skemmtilegt að lesa, þó þetta sé vissulega í lengra lagi! :) Maður missir sig stundum… En ég vil endilega heyra skoðanir ykkar, látið heyra í ykkur, og ef þið finnið eitthvað til að leiðrétta, endilega látið vita, eins og ég segi þá er ég enginn sérfræðingur!


Virðingarfyllst, eel.


P.s. ég sendi þessa grein fyrir nokkru inn á Landsbankadeildar-áhugamálið og fékk engin viðbrögð, svo á þetta sennilega betur við hér þar sem þetta fer út fyrir úrvalsdeildina… svo ég vona að stjórnandi þess áhugamáls sjái þetta og samþykki ekki hina greinina þegar hann loksins sér hana! :)
“Napoleon is always right!” -Boxer