Fjórða umferð hafin Fjórða umferð Símadeildarinnar hófst í dag með tveimur leikjum. Í Eyjum tóku heimamenn á móti KR-ingum, og sigruðu Eyjamenn, 1:0. Aleksander Ilic skoraði eina mark leiksins á 52. mínútu eftir mikinn darraðadans inni í markteig KR-inga. KR var þó öllu sterkari aðilinn í leiknum, sótti mun meira í fyrri hálfleik, þrátt fyrir mótvind, en síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn. KR-ingar hafa nú tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sumarsins, en í allt fyrrasumar töpuðu KR-ingar einmitt þremur leikjum.

Í Laugardalnum tóku Framarar á móti Grindvíkingum. Fyrir leikinn vermdi Fram botnsæti deildarinnar með 0 stig, en Grindvíkingar höfðu þrjú stig í 8 - 9 sæti. Grindvíkinar skoruðu fyrsta mark leiksins á 42. mínútu og var þar Sinisa Kekic að verki. Ómar Hákonarson jafnaði leikinn fyrir Fram á 69. mínútu, en sigurmark Grindvíkinga skoraði Paul McShane tíu míútum síðar.

Staðan í deildinni er þessi:


1. Valur 3 2 1 0 4 : 2 7
2. ÍBV 4 2 1 1 2 : 1 7
3. Breiðablik 3 2 0 1 3 : 2 6
4. Grindavík 4 2 0 2 5 : 5 6
5. Keflavík 3 2 0 1 4 : 4 6
6. FH 3 1 2 0 4 : 2 5
7. ÍA 3 1 1 1 5 : 4 4
8. Fylkir 3 1 1 1 2 : 2 4
9. KR 4 1 0 3 2 : 5 3
10. Fram 4 0 0 4 3 : 7 0