Vonbrigði í Laugardal: 1-1 Ísland gerði 1-1 jafntefli við Búlgaríu í undankeppni HM í kvöld. Ísland hafði 1-0 yfir í hálfleik eftir að Eiður Smári Guðjohnsen tók aukaspyrnu á 43. mínútu og hitti beint á kollinn á Ríkharði Daðasyni sem skallaði boltann í netið, en þetta var 12 mark Ríkharðs fyrir Ísland. Ríkharður fór síðan út af fyrir Heiðar Helguson. Íslendingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru betri aðilinn. Helgi Sigurðsson fékk dauðafæri á 50. mínútu þegar hann komst einn í gegn en hann var klaufi að láta markvörð Búlgara verja frá sér. Heiðar, sonur Helgu, fékk einnig dauðafæri en mokaði boltanum yfir.

Ósköpin skullu yfir á 80.mínútu. Búlgarar jöfnuðu metin í 1-1 en það var Dimitar sem skoraði eftir að Árni Gautur hafði ekki haldið boltanum eftir aukaspyrnu.
Úrslit: Ísland 1-1 Búlgaría.
Það er nokkuð ljóst að við þurfum að bíða í nokkur ár í viðbót eftir því að komast á okkar fyrsta heimsmeistaramót. Þess má að lokum geta að frændur okkar og “riðils-félagar” Danir unnu nauman 2-1 sigur á Möltu.