Ungmennaliðið vann Búlgara Íslenska ungmennalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann Búlgaríu á Akranes-velli 3-2 eftir að Ísland hafði 1-0 yfir í hálfleik (myndin hér til hliðar er ekki frá leiknum!). Það var “heimamaðurinn” Jóhannes Karl Guðjónsson sem skoraði beint úr aukaspyrnu á fertugustu mínútu og kom strákunum okkar yfir. Jóhannes var ekki með gegn u21 liði Möltu vegna þess að þá var hann að taka út leikbann.

Marel Baldvinsson bætti öðru marki við þegar 7 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en hann spilaði frammi í leiknum með Bjarna Guðjónssyni fyrirliða. Búlgarar minnkuðu muninn skömmu síðar í 2-1. Baldur Aðalsteinsson, ÍA, kom Íslandi í 3-1 með góðu marki á 67. mínútu, Búlgarar minnkuðu aftur muninn á síðustu mínútu leiksins, en þar við sat. Skömmu áður en flautað var til leiksloka var einum leikmanni Búlgaríu vísað af leikvelli, fékk sitt annað gula spjald. Góður 3-2 sigur á Búlgörum staðreynd og íslenska liðið hefur nú náð að rétta hlut sinn í riðlinum eilítið, er með átta stig eftir sjö leiki.

A-landslið þjóðanna leiða saman hesta sína á Laugardalsvelli á morgun kl.18:00. Hermann Hreiðarsson (á mynd) verður í byrjunarliði Íslands en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Ég hvet ykkur eindregið til að mæta á leikinn. Sjáumst þar!