Þriðja umferð í hnotskurn Þriðja umferð Símadeildarinnar hófst á sunnudag í Kaplakrika þar sem nýliðarnir í FH tóku á móti Íslandsmeisturum KR. Fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar var KR öllu sterkari aðilinn, sótti meira, en þó án nokkurrar uppskeru. Sigþór Júlíusson átti hörkuskot að marki eftir sendingu frá Þórhalli Hinrikssyni, auk þess sem Arnar Jón og Guðmundur Benediktsson saumuðu sig oft gegnum vörn FH-inga og sköpuðu töluverðan usla. En leikmenn Fimleikafélagsins tóku öll völd á vellinum eftir um tuttugu mínútna leik og tvö mörk litu dagsins ljós, frá þeim Atla Viðari Björnssyni og Jóhanni G. Möller á 22. og 26. mínútu. Eftir það var leikurinn ekkert fyrir augað og fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks.

Í Grindavík unnu heimamenn sinn fyrsta leik í sumar þegar þeir lögðu Breiðablik, 2:1. Sinisa Kekic kom heimamönnum yfir á 28. mínútu eftir mikinn hamagang inni á teignum. Rétt fyrir leikhlé komust Grindvíkingar í 2:0 eftir að vítaspyrna hafði verið dæmd á Guðmund Guðmundsson hjá Breiðabliki. Ólafur Örn Bjarnason skoraði af öryggi úr spyrnunni. Bjarki Pétursson hjá Breiðabliki minnkaði muninn fyrir Blika á 76. mínútu leiksins með glæsilegu marki eftir sendingu frá Arngrími Arnarsyni, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Fylkir og Valur áttust við í fjörugum leik í Árbæ, sem þó lyktaði með markalausu jafntefli. Fylkir sótti mikið í leiknum og átti mörg hættuleg færi án þess að ná að koma knettinum yfir marklínu Vals. Þeir Steingrímur Jóhannesson, Kristinn Tómasson og Sævar Þór Gíslason skipuðu sóknina, og áttu múg góðra marktækifæra og hefðu hæglega getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik. Valsmenn áttu einnig sín færi, en þau voru af skornum skammti. Lokatölur 0:0.

Uppi á Skipaskaga tóku heimamenn á móti Keflavík í bráðfjörugum leik. Heimamenn komust yfir strax á 14. mínútu með marki frá Grétari Rafn Steinssyni sem nýtti sér mistök í vörn Keflavíkur og skoraði fram hjá Gunnleifi Gunnleifssyni af um 15 metra færi. Skagamenn sóttu nær stanslaust í leiknum, áttu 23 markskot og 9 hornspyrnur, sem verður að teljast mjög mikið. Fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik, en á 68. mínútu skoraði Haraldur Hinriksson annað mark Skagamanna eftir mikinn darraðardans inn á teig Keflavíkur. Leiknum lyktaði með 2:0 sigri ÍA.

Á Valbjarnarvelli í Laugardal tóku Framarar á móti ÍBV. Leikurinn fór rólega af stað og fyrsta marktækifærið kom á 19. mínútu þegar Birkir Kristinsson bjargaði ÍBV glæsilega. Framarar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik, voru allan tímann með boltann og Eyjamenn skorti allan vilja og einbeitningu, en það höfðu Framarar hins vegar nóg af. Njáll Eiðsson hefur hins vegar messað vel yfir sínum mönnum í hálfleik, því Eyjamenn komu tvíefldir til síðari hálfleiks. Mikil meiðsl hrjáðu Eyjaliðið sem urðu að gera miklar breytingar sökum þess, en þær virðast bara hafa reynst vel. Ingi Sigurðsson kom inn á í hálfleik og hleypti fersku blóði í liðið, sem uppskar mark á 76. mínútu þegar Tómas Ingi Tómasson skoraði með glæsilegu vinstri fótar skoti í þverslá og inn. Lokatölur 1:0.