Bolton Wanderers komst í dag í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu á nýjan leik er þeir lögðu lið Preston í hreinum úrslitaleik um sæti í deildinni á Millenium Stadium í Cardiff.

Lokatölur urðu 3-0 fyrir Bolton og var sigurinn mjög sanngjarn.

Fyrsta markið kom á 17. mín og það var Gareth Farrelly sem skoraði það. Eftir það hélst leikurinn í járnum fram á síðustu mínútur. Þá voru flestir leikmenn Preston komnir í sóknina og við það opnaðist vörnin og fyrir vikið tókst Bolton að skora tvö mörk á 89. og 90. mín. Mörkin gerðu Michael Ricketts og Ricardo Gardner.

Guðni stóð sig mjög vel í leiknum og fékk 7 í einkunn hjá netmiðlinum sports.com.

Nú er hins vegar spurning hvað Guðni gerir í framhaldinu? Hann ætlaði að hætta fyrir þetta tímabil en snérist hugur á síðustu stundu og sem betur fer segja stuðningsmenn Bolton því Guðni hefur verið frábær í allan vetur og var valinn besti leikmaður félagsins annað árið í röð um daginn.

Það hlýtur að vera freistandi fyrir Guðna að vera eitt ár í viðbót þar sem þeir eru komnir í úrvalsdeildina. Ekki amalegt fyrir hann að ljúka glæstum ferli með því að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Þess má einnig geta að Bolton er talið græða um 30 milljónir punda á því að vera komnir í úrvalsdeildina.