Gaizka Mendieta, sem er ekki aðeins fyrirliði Valencia heldur líka í hópi bestu miðjumanna í heiminum í dag, er að sögn fjölmiðla á Ítalíu alveg á þröskuldinum við að ganga til liðs við AC Milan. Liðin eiga að hafa sæst á verðmiða upp á $35 milljónir og aðeins eftir að semja um kaup og kjör við Mendieta sjálfan. Forseti Valencia heldur áfram að reyna að draga úr fréttunum en kunnugir segja það bara bragð til að halda reiðum aðdáendum í skefjum. Þjálfari liðsins, Hector Raúl Cúper, er búinn að gera skilyrt samkomulag við Barcelona (hann gerist þjálfari ef þeir ná inní Meistardeildina) og allar líkur eru á því að argentíski snillingurinn Kily Gonzales gangi til liðs við Juventus í sumar. Ef fréttist að Mendieta sé líka á förum munu aðdáendur “Los Che”, eins og liðið er kallað á Spáni, heimta blóð - svo mikið er víst.