ÍBV hefur spilað tvo leiki í Símadeildinni en hefur ekki tekist að koma tuðrunni í net andstæðingana. Njalli þjálfari er þó að reyna að laga þetta, til dæmis með því að fá Tómas Inga til liðsins. Aleksander Ilic frá Júgóslavíu hefur ekki alveg náð sér á strik en er fínn sóknarmaður miðað við leikina sem hann spilaði á undirbúningstímabilinu.

Vestmannaeyjingar hafa líka eytt löngum tíma í að reyna að fá Dejan Djokic til Íslands. Erfiðlega hefur gengið að fá öll nauðsynleg leyfi fyrir kappann en nú er því lokið. Allar líkur eru á því að Djokic lendi í Keflavík í kvöld og hann mun síðan koma með fyrsta flugi til Eyja á morgun. Djokic er 32ja ára framherji og er góð viðbót við sóknarleik ÍBV sem hefur eins og áður sagði ekki verið bitmikill til þessa. Djokic verður væntanlega með ÍBV gegn Fram í næsta leik í Símadeildinni næstkomandi mánudag og ef að hann stenst væntingar verður gerður samningur við þennan reynda júgóslavneska leikmann.