Gary Megson, stjóri WBA, er byrjaður að undirbúa lið sitt fyrir næsta tímabil og hann hefur nú þegar sett fimm leikmenn á sölulista, en WBA tapaði fyrir Bolton í umspili 1. deildarinnar.

Þetta eru þeir Richard Sneekens, Jason van Blerk, Matt Carbon, Daryl Burgess og Paul Mardon og svo segir einnig í sömu frétt að hann myndi vart hafna boði í Lárus Orra Sigurðsson ef það væri sanngjarnt.

Megson hefur náð frábærum árangri með lið WBA en hann tók við þeim er hann var rekinn frá Stoke svo Guðjón Þórðarson kæmist að. Ekki fannst öllum stuðningsmönnum Stoke það góð ákvörðun en það er allt annað mál.

Mikið hefur verið rætt um það að Lárus Orri færi aftur til Stoke og miðað við þessar fréttir er það ekki fjarlægur möguleiki, það er ef Stoke hefur áhuga á að fá Lárus Orra aftur en hann lék með þeim fyrir nokkrum árum.