Gerard Houllier, stjóri Liverpool, hefur hótað þeim Michael Owen og Robbie Fowler að selja þá ef þeir ætli sér eitthvað að draga það að skrifa undir nýjan samning við Liverpool, en þeir eiga báðir tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við Liverpool. Houllier segist ekki vilja að sama staða komi upp með þá tvö og kom upp er Steve McManaman fór til Real Madrid á sínum tíma með lausan samning.

“Ég mun ekki vera blíður því ég vil ekki láta góma mig með buxurnar á hælunum og án framherja.

”Annaðhvort verða leikmenn áfram eða maður selur þá. Ég mun ekki láta það viðgangast að sama staða komi upp hjá þeim og Steve McManaman á sínum tíma. Liverpool er félag sem margir leikmenn vilja koma til í dag þannig að ég ætla ekki að láta neinn halda mér í gíslingu," sagði Houllier.

Vitað er af því að þeir vilja báðir vera áfram á Anfield en Houllier hefur engu að síður ekki farið leynt með það að hann vilji fá David Trezeguet til Liverpool.

Owen mun þó líklega fara fram á himinhá laun í nýja samningnum og það gæti orðið vandamál. Svo er það spurning hversu lengi Robbie Fowler mun sætta sig við það að vera á tréverkinu?

Ef þeir ákveða að framlengja ekki samning sinn við Liverpool er löng röð liða sem bíður væntanlega eftir því að bjóða þeim gull og græna skóga.