KR-sigur í Vesturbænum KR-ingar sigruðu í kvöld Skagamenn með tveimur mörkum gegn einu í bráðfjörugum leik. Stemmningin á fyrsta heimaleik KR var með besta móti. Það voru Skagamenn sem náðu forystunni í leiknum með marki Grétars Rafns Steinssonar undir lok fyrri hálfleiks. Skagamenn sóttu öllu meira í fyrri hálfleik, enda að leika undan sterkum vindi. Fyrr í leiknum hafði ÍA gert harða hríð að marki KR og eitt af skotunum hafnaði í þverslá KR. Í upphafi síðari hálfleiks sóttu KR-ingar af miklum krafti og hefðu hæglega getað skorað á fyrstu 3 - 4 mínútunum. Jöfnunarmarkið kom hins vegar á 60. mínútu leiksins þegar Einar Þór Daníelsson skoraði í opið markið eftir að hafa komist fram hjá allri vörn ÍA. Moussa Dagnogo tryggði svo KR sigurinn með ekki ósvipuðu marki þegar um tíu mínútur lifðu eftir leiks. Þar með varð fyrsta mark hans fyrir KR staðreynd og var honum vel fagnað af stuðningsmönnum KR, sem létu vel í sér heyra.

Staðan í deildinni er þannig að loknum tveimur umferðum:

1. Keflavík 6
2. Valur 6
3. Breiðablik 6
4. Fylkir 3
5. KR 3
6. FH 1
7. ÍA 1
8. ÍBV 0
9. Fram 0
10. Grindavík 0