Úrvalslið Ronaldinho vann úrvalslið Andrei Shevhenko 6-3 í Football for Hope góðgerðarleiknum á Nou Camp í Barcelona í kvöld. Þrjár milljónir dollara söfnuðust á leiknum en völlurinn sem tekur um 100 þúsund áhorfendur var langt frá því að vera þéttsetinn. Aðeins 36 þúsund miðar á verðinu 10-29 evrur seldust

Fyrir leikinn var mínútu þögn til minningar um þau 287 þúsund sem létust í flóðunum sem fylgdu á eftir jarðskjálftunum í Indlandshafi.

Leikurinn þótti mikil skemmtun enda virtust allir leikmennirnir vera að njóta þess að vera til á Nou Camp. Samuel Eto´o skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu en fyrr um daginn hafði hann verið kjörinn knattspyrnumaður Afríku.

Félagi hans í Barcelona, Ronaldinho sem er knattspyrnumaður ársins 2004 af FIFA bætti öðru marki við sex mínútum síðar eftir skemmtilegan samleik sem endaði á að Kaka gaf á landa sinn sem þurfti bara að rúlla boltanum yfir línuna.

Alessandro Del Piero minnkaði muninn fyrir lið Shevchenko eftir frábæra sendingu frá Zinedine Zidane. Mínútu síðar hefði Shevchenko átt að jafna en skalli hans fór yfir. Eto´o bætti hinsvegar við öðru marki sínu og þriðja marki liðs Ronaldinho eftir að hafa platað Casillas í markinu.

Í síðari hálfleik náði lið Shevchenko að jafna metin með mörkum Gianfranco Zola og David Suazo.

En lið Ronaldinho átti síðasta orðið með tveimur mörkum Henri Camara leikmanns Southampton og marki Cha Doo-Ri leikmanns Eintracht Frankfurt á 79. mínútu.

Frank Rijkaard annar þjálfara sigurliðsins sagði: Ég tel að það sé rétt að taka þátt í svona atburði. Það er mikilvægt fyrir fórnarlömb flóðanna og ég tel að leikmennirnir hafi gert vel.

Lennard Johansson forseti UEFA hrósaði því hversu fljótt fótboltinn brást við flóðunum og sagði: Margar ríkisstjórnir tóku seint við sér en fótboltinn brást strax við."

Fótboltinn hefur í heildina safnað tíu milljónum dollara eftir flóðin sem urðu á annan dag jóla.