Hinn aldni en þrælhressi varnarmaður West Ham, Stuart Pearce, hefur lýst yfir miklum áhuga á að taka við liðinu eftir skyndilegt brotthvarf Redknapps. Hugur hans hefur lengi staðið til þjálfunar og knattspyrnustjórnar. Hann hefur smá reynslu í því, tók við liði Nott. forest 1996 þegar Frank Clark lét þar af störfum. Pearce ætlaði að fara að skrifa undir áframhaldandi árssamning við West Ham þegar Redknapp fór og er nú í lausu lofti eins og allir virðast vera þar á bæ um þessar mundir. “Þetta tímabil hefur ekki beinlínis verið glimrandi hamingja hjá okkur og sá sem tekur við á erfitt starf fyrir höndum” er haft eftir Pearce. Hann er þó óhræddur og vill koma Hömmurunum á réttan kjöl.