Ástand valla í Símadeildinni Á þriðjudaginn fer fyrsti leikur Símadeildarinnar í ár fram. Þá mætast Fylkir og KR og er óvíst hvort að leikurinn fari fram í Árbænum. Ástand valla sem leikið verður á í fyrstu umferð virðist misgott samkvæmt visir.is og er einna helst að sjá að vellirnir í Reykjavík eru seinni til en aðrir.

Grindavíkurvöllur: Ekkert getur komið í veg fyrir að unnt verði að spila á þessum velli í fyrstu umferð. Keflvíkingar spila þá við Grindvíkinga.

Akranesvöllur: Völlurinn hefur tekið vel við sér á síðustu vikum. Hann hefur sjaldan eða aldrei litið betur út miðað við árstima. ÍA leika gegn FH á fimmtudaginn.

Hásteinsvöllur, Vestmannaeyjum: Völlur ÍBV er iðagrænn og fallegur. Sá völlur sem kemur best undan vetri. Veit einhver hvað vallarstjórinn ber á völlinn?

Fylkisvöllur (mynd): Ekki verður ákveðið fyrr en degi fyrir leikdag (mánudag) hvort hægt verði að leika á Árbæjarvelli. Ef það verður ekki hægt þá fer leikurinn væntanlega fram í Varmá, Mosfellsbæ.

Laugardalsvöllur: Ástand vallarins þokkanlegt en mætti vera mun betra. Það þarf að hlýna mikið og ekki má rigna mikið fram að leikdag svo hægt verði að leika á aðalvellinum. Mikið á eftir að mæða á vellinum í byrjun júní vegna tveggja landsleikja svo að reikna má með því að leikur Fram og Vals verði færður upp á Valbjarnarvöll.

Kópavogsvöllur: Völlur Breiðabliks grænkar með hverjum degi og verður í lagi þegar liðið leikur gegn ÍBV í fyrsta leik.

KR-völlur: Vesturbæingar eiga sinn fyrsta heimaleik í annarri umferð og er ekki annað að sjá en að þeirra völlur verði tilbúinn í slaginn þegar átökin hefjast.

Ekki hef ég upplýsingar um velli FH, Keflavíkur og Vals. Þó veit ég að völlur síðastnefnda liðsins verður örugglega leikfær fyrir fyrsta heimaleik Vals.