Höttur Egilsstöðum gerist hlutafélag! Í kvöld var haldinn fundur í Menntaskólanum á Egilsstöðum um stofnun hlutafélags fyrir m.fl karla og kvenna og 2. flokk karla. Hilmar Gunnlaugsson lögmaður, varaalþingismaður og fyrrum leikmaður Hattar fór yfir ástæður og hugmyndir að baki hlutafélagsstofnuninni. Fundarmenn voru fjölmargir (mun fleiri en á flestum heimaleikjum s.l. sumar) og voru flestir mjög jákvæðir á þetta fyrirhugaða rekstrarfyrirkomulag og áhugasamir um að kaupa sér hlut. Meðal fundarmanna var Hjálmar Jónsson stórHattari, atvinnumaður með IFK Gautaborg og landsliðsmaður í knattspyrnu og var hann einn þeirra sem gáfu skriflegt bindandi loforð fyrir hlutafé inn í félagið.

Fundarmenn voru eins og gefur að skilja mjög óánægðir með gengið s.l. sumar þegar Höttur náði sögulegu knattspyrnulegu lágmarki og sigraði ekki leik í Austurlandsriðli 3.deildar eftir frábært tímabil þar á undan þar sem óheppnin ein réði því að Höttur fór ekki upp í 2.deild. En einhverja hluta vegna yfirgáfu 10 leikmenn liðið frá því góða tímabili og í staðinn komu aðallega leikmenn utandeildarliða í nágrenninu. Mikið af þeim leikmönnum sem fóru voru heimamenn og forsenda þess að reka öflugt knattspyrnulið hér í bæ er að sjálfsögðu að halda sem flestum heimamönnum áfram í okkar herbúðum og til þess þarf eitthvert starf að vera í gangi innan félagsins yfir vetrarmánuðina. Það er því stefna hlutafélagsins að reka þessa flokka á heils árs grundvelli en ekki rétt rúmlega sumarið eins og verið hefur undanfarin ár.

Skipta má markmiðum rekstrarins upp í þrennt:

1) Félagsleg markmið.

- að starfrækja öflugt knattspyrnustarf fyrir iðkendur á aldrinum 17 - 30+ ára. Vera alltaf með 2. flokk.

- að efla sjálfsmynd bæjarbúa og bæjarbrag með frambærilegum liðum.

2) Rekstrarleg markmið.

- Að eigið fé aukist um 5% á ári (sem þýðir 200-300 þúsund k. hagnað á ári). Hluthafar mega búast við að hagnaður verði nýttur til frekari uppbyggingar á aðstöðu eða starfsemi félagsins, frekar en að greiða hann út sem hlutafé.

3) Knattspyrnuleg markmið.

- Mfl. karla verði orðinn nokkuð stöðugt 1. deildarlið innan 7-8 ára.

- Mfl. kvenna verði í efstu deild.

- 2. flokkur verði að jafnaði í B-deild, en komist á næstu 8 árum a.m.k. einu sinni í A-deild


Jæja ég er Egilsstaðabúi og mér líst alveg frábærlega á þetta og vona að þetta muni hjálpa þessu félagi í hæstu hæðir :D

En haldið þið að þetta virki? Er þetta kannski of lítið félag til að vera haldið uppi sem hlutafélagi?