Fylkir Reykjavíkurmeistari Fylkir tryggði sér í gærkvöldi Reykjavíkurmeistaratitil karla í knattspyrnu með því að leggja að velli Val, 4:2 eftir vítaspyrnukeppni. Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 1:1. Mikilð rok var á gervigrasinu í Laugardalnum, þar sem leikurinn fór fram, en Valsarar léku með vindi í fyrri hálfleik. Þeir sóttu mun meira en Fylkir í fyrri hálfleik og áttu m.a. tvö sláarskot beint úr hornspyrnum. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik, en Fylkismenn brenndu af vítaspyrnu sem þeir fengu eftir hálftíma leik. Snemma í síðari háfleik leit fyrsta markið dagsins ljós, en það var Steingrímur Jóhannesson sem skoraði það úr markteig Valsara eftir hornspyrnu Kristins Tómassonar. Eftir þetta urðu Valsmenn mun ákafari og uppskáru mark þremur mínútum fyrir leikslok eftir mistök í vörn Fylkismanna. Matthías Guðmundsson skoraði. Því varð að grípa til framlengingar, en í henni gerðist fátt marktætt og það varð úr að vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um úrslitin. Í henni sigruðu Fylkismenn 4:2, en Kjartan Sturluson varði frá Valsaranum Kristni Lárussyni og Sverrir Þór Gíslason skoraði úr síðustu spyrnunni og tryggði Árbæingum titilinn.