Áfram með yfirferðina, næstu 4 lið núna.

Keflavík.
Bikarmeistararnir hafa misst þjálfarann sinn, Milan Stefán Jankovic, til Grindavíkur. Leit stendur yfir að eftirmanni hans. Menn eins og Gunnar Oddsson, Kjartan Másson og Guðni Kjartansson þykja líklegastir en einn kandídatinn, Zoran Ljubicic, fyrirliði liðsins í sumar er farinn til Völsungs á Húsavík og verður spilandi þjálfari liðsins á næsta tímabili. Menn hafa einnig nefnt Velimir Sargic og Eyjólf Sverrisson sem líklegan þjálfaradúett (svipað og hjá FH)
Örgryte hefur áhuga á Herði Sveinssyni og Ålesund hefur áhuga á Haraldi Guðmundssyni og Þórarni Kristjánssyni og hafa boðið Haraldi samning þannig að Keflvíkingar gætu misst nokkra lykilmenn fyrir næsta tímabil.
Scott Ramsey verður mjög líklega með næsta tímabil a.m.k. en Sreten Djurovic snýr að öllum líkindum heim til Júgóslavíu en hann stóð ekki undir væntingum í sumar.

Grindavík.
Eins og frægt er orðið vilja Grindvíkingar fá Gauja Þórðar sem næsta þjálfara og hafa hann þá með Milan Stefáni í þjálfun liðsins. Ef ekki verður Milan Stefán þá einn með liði á næstu leiktíð.
Óli Stefán Flóventsson er farinn frá liðinu og er það mikill missir fyrir liðið enda Óli lykilmaður þar á bæ lengi vel. Óvænt flétta er komin í málið, nýjustu fregnir herma að hann gæti verið um kyrrt en hann hefur fengið mikil viðbrögð hjá bæjarbúum sem vilja sjá hann áfram hjá Grindavík.
Albert Sævarsson fór í fússi undir lok síðasta tímabils og eru Grindvíkingar í töluverðum vandræðum með markvarðarstöðuna.
Grétar Hjartarson er orðaður við mörg lið heima og erlendis og líklegt er að hann fari í atvinnumennsku en ef ekki held ég að hann skrifi undir nýjan samning við Grindavík.

Fram.
Færeyingarnir Hans Fróði og Fróði eru farnir frá liðinu. Þeir ætla þó að vera á landinu í vetur og verða í Landsbankadeildinni á næsta ári.
Fram hefur ráðið Ólaf Ólafsson sem aðstoðarþjálfara fyrir Ólaf Kristjánsson.
Ólafur hyggst sækja leikmenn til Danmerkur fyrir næsta tímabil, allt upp í 3 leikmenn. Víðir Leifsson og Kristinn Darri Röðulsson hafa gengið til liðs við Fram á síðustu dögum.
Eggert Stefánsson gæti farið í atvinnumennsku innan skamms en þá yrðu Framarar í slæmum málum í vörninni. Hann hefur þó skrifað undir samning þannig að hann er ekki falur nema fyrir rétt verð. Aðrir sem hafa framlengt samning sinn eru m.a. Andrés Jónsson og Ragnar Árnason.
Þórhallur Dan hefur verið orðaður við liðið.

KA.
Það er spurning hvort Þorvaldur Örlygsson verður áfram þjálfari liðsins, framtíð hans er í augnablikinu óráðin.
Sandor Matus vill vera áfram á næsta ári og KA-menn vilja halda honum. Hann verður þó í Ungverjalandi í vetur.
Lárus Orri Sigurðsson flytur til Akureyrar í vor og spilar því með Akureyrarliði á næsta ári. Það gæti orðið KA.
Dean Martin verður líklega með næsta tímabil.