Þó að tímabilið sé búið er ekki hægt að segja að umræðan um Landsbankadeildina hafi stöðvast. Langt því frá. Margt er í gangi þessa dagana, aðallega í leikmanna- og þjálfaramálum. Ég hef hugsað mér að fara stuttlega yfir leikmannamál þeirra liða sem voru í deildinni í ár og þeirra sem komu upp í haust.

FH.
Íslandsmeistararnir munu halda þjálfarateymi sínu og leikmenn verða flestir þar á næsta ári.
Emil Hallfreðsson gæti vel verið á leið til Everton en sama hvort hann skrifar undir eða ekki er líklegt að hann spili með FH næsta sumar.
Víðir Leifsson var ekki sáttur við fá tækifæri og er farinn í Fram.
FHingar eru meðal liða sem vilja fá leikmenn á borð við Grétar Hjartarson og Sævar Þór Gíslason.

ÍBV.
Spútniklið sumarsins hefur misst þjálfarann Magnús Gylfason í KR, Bjarnólfur Lárusson er hættur með liðinu og Einar Þór Daníelsson er hættur. Þá gæti Tryggvi Bjarnason líka verið á leið í KR.
Matt Garner verður áfram en Mark Schulte er farinn utan til Belgíu að reyna að komast að hjá liði þar. Hann verður þó líklega með á næsta tímabili.
Gunnar Heiðar er að sjálfsögðu farinn til Svíþjóðar.
Guðlaugur Baldursson þreytir frumraun sína í meistaraflokki en hann þjálfar liðið næsta sumar. Birkir Kristinsson verður með ÍBV næsta sumar.
Þá hefur Grétar Hjartarson verið orðaður við liðið.

KR.
Vesturbæjarstórveldið hyggur á breytingar fyrir næsta tímabil, Magnús Gylfason þjálfar liðið og Rógvi Jacobsen er nýr í herbúðum þeirra. Tvíburarnir og Kristján Finnbogason verða áfram en það er spurning með Kristján Örn en hann verður þó líklega áfram hjá KR.
Ágúst Gylfason er talinn vera á leiðinni í Fram og líklegt þykir að Bjarnólfur Lárusson komi í hans stað.
Petr Podzemski er farinn.
Grétar S. Sigurðsson úr Víkingi gæti orðið leikmaður KR fyrir næsta tímabil.
Garðar Jóhannsson skrifaði undir nýjan samning og verður í KR á næsta tímabili í það minnsta.

Fylkir.
Allt er farið í háaloft í málum Fylkismanna eins og flestir vita. Þórhallur Dan og Sævar Þór eru farnir í fússi. Ólíkt öðrum leikmönnum með lausa samninga eru þeir ekki orðaðir við KR, enda Fylkisliðið helsti andstæðingur KR undanfarin ár.
Björgólfur Takefúsa gæti verið á leið aftur í Þrótt en liðið vann sér sæti í Landsbankadeildinni í sumar.
Haukur Ingi verður ekki með næsta árið vegna læknamistaka, enn eitt áfallið fyrir Fylki og ef fer fram sem horfir verða Fylkismenn afar framherjafáir áður en langt um líður.