Hvernig gengur á Spáni Flest af liðunum í Landssímadeildinni eru nú á Spáni að hita sig upp fyrir komandi átök. Ég ákvað að kíkja á hvernig hefur gengið hjá hinum og þessum liðum.

Eyjamenn lögðu spænska liðið Lepe að velli 1-0 í gær. Sigurmarkið skoraði hinn þrjátíu ára Júgóslavi, Alexander Ilic, en hann hefur hingað til leikið mjög vel í liði ÍBV.

KR-ingar unnu 2-1 sigur á spænska liðinu Cádiz í gær. Mörk KR skoruðu Einar Þór Daníelsson úr vítaspyrnu og Þórhallur Hinriksson.
Tryggvi Bjarnason fékk svo rautt spjald skömmu fyrir leikslok.

Samkvæmt heimasíðu Fylkis var liðinu rænt sigrinum gegn Isla Christina í gær. Fylkismenn komust í 2-0 með mörkum frá Steingrími Jóhannessyni og Sævari Þór Gíslasyni, en dómarinn gaf svo Spánverjunum tvær vítaspyrnur á silfurfati undir lok leiksins sem þeir nýttu og þar við sat. Æfingaferð Fylkismanna er því lokið og þeir væntanlegir á klakann í kvöld.