Kjartan Antonsson, leikmaður hjá ÍBV, fer að óbreyttu ekki til norska félagsins Haugesund. Kjartan stóð sig vel í reynsluleik með félaginu fyrir skömmu en Haugesund prófaði síðan annan varnarmann, Mustapha Sama frá Sierra Leone og hefur gert honum tilboð.
Kjartan er farinn með Eyjamönnum í æfingabúðir í Portúgal en hefur ekkert heyrt frá Haugasundi. Þjálfari norska liðsins vill reyndar fá að kaupa tvo varnarmenn en stjórnin segir að einungis komi til greina að kaupa einn.

Munið þið eftir honum Gunnari Sigurðssyni, fyrrum markverði ÍBV í knattspyrnunni? Allavega er hann genginn til liðs við 3. deildar liðið í Vestmannaeyjum, KFS. Gunnar hefur undanfarin tvö ár varið mark sænska 1. deildar liðsins Brage en flutti aftur heim eftir síðasta tímabil.

Og svo má bæta við einni ánægjulegri frétt af www.ibv.is. Hjalti Jónsson og Linda Björk Ólafsdóttir eignuðust dreng 9.Apríl. Allt gekk að óskum við fæðinguna er talið að drengurinn verði mjög sterkur knattspyrnumaður í framtíðinni. Hjalti er mjög sterkur miðjumaður. Við óskum Hjalta til hamingju með afkvæmið sem var jafnframt hans fyrsta.