“Við spiluðum ekki fallega og lengi vel var þetta frekar dapurt hjá okkur en það sýnir styrk að vinna leiki þegar við erum vægast sagt slakir,” sagði Þórhallur Dan Jóhannsson, varnarmaður Fylkis, eftir sigurinn í Árbænum en hann átti góðan leik í vörninni.

“Munurinn á frammistöðu okkar fyrir og eftir hlé liggur í að við fórum full aftarlega eftir góða byrjun í stað þess að eiga meira á miðjunni og við vorum ekki nógu góðir í dag. Það var samt ekki farið að fara um okkur því að við vorum með leikinn í okkar höndum og þótt þeir hafi sótt man ég ekki eftir að þeir hafi fengið færi allan leikinn.”
Þórhallur hefur marga fjöruna sopið með Fylki í gegnum tíðina en segir nú breytingu á. “Leikir eins og þessi eru að falla fyrir fætur liðanna á toppnum en myndu ekki gera það hjá botnliðunum - það höfum við reynt hér hjá Fylki. Nú höfum við leikið tvo góða leiki og ég held að þetta verði ekki verra.”