Nú er farið að styttast í að fótboltatímabilið klárist, þótt eflaust eigi mikið eftir að ganga á þessa 2 mánuði sem eftir eru. Það eru nánast hverfandi líkur á því að einhver eigi eftir að hindra það að Manchester United verði enskur meistari, en þó er mikil spenna í kringum það hvernig liðin eigi eftir að skipa sér í sætin sem þar koma á eftir. Eins er farið að sjást í endamarkið á þeim bikarkeppnum sem ensku liðin taka þátt í. Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá eru Liverpool, Wycombe, Arsenal og Tottenham eftir í enska F.A. bikarnum, Liverpool er eitt af fjórum liðum sem eftir eru í UEFA keppninni og Man.Utd, Arsenal og Leeds eru öll ennþá í slagnum í Meistaradeildinni.

Það eru eflaust margir með draumóra um gengi sinna manna það sem eftir er leiktíðar, suma dreymir um þrjá bikara í hús og sumir hafa aðra drauma. Það er samt alveg á hreinu að enginn veit fyrir víst hvernig þetta kemur til fara allt saman. Til að reyna að spá aðeins í spilin þá voru 5 miklir knattspyrnuspekingar fengnir til að leggja sitt mat á það hvernig þetta kemur til með að fara. Til að hafa jafnvægi í hlutunum þá fengum við til liðs við okkur tvo Man.Utd aðdáendur sem án nokkurs vafa teljast til þeirra alhörðustu sem fyrir finnast hér á landi, en það eru pistlahöfundarnir okkar góðkunnu, Ölver og Rauður Ópall. Einnig var fenginn grjótharður Arsenal aðdáandi sem kýs að ganga undir nafninu Nallarinn, og að lokum var leitað til Púllaranna Mumma (vefstjóra liverpool.is) og Hallgríms Indriðasonar (fréttaritara liverpool.is). Þessir miklu spekingar lögðu hausinn í bleyti og voru látnir spá í alla leiki sem 9 efstu liðin eiga eftir og þar að auki um hvernig málin færu í F.A. bikarnum, UEFA bikarnum og Meistaradeildinni. Spekingarnir fengu aldrei að spá í hlutina í samhengi og þurftu að spá fyrir um hvern leik fyrir sig einan og sér, sem ætti að gefa þessu meira gildi. Auðvitað kemur enginn heilagur sannleikur fram í þessu, en menn voru missammála um leikina og hér gefur að líta hvernig fimm menningarnir horfðu fram á veginn. Fyrst verður liðið, svo hvort leikurinn sé heima eða heiman, þar næst kemur mótherjinn og inni í sviganum koma svo stigin sem þeir spá að liðið fái út úr leiknum:

Manchester United: Ú – Liverpool (1), H – Charlton (3), H – Coventry (3), H - Man.City (3), Ú - Middlesbrough (1), H – Derby (3), Ú – Southampton (3), Ú – Tottenham (1).

Arsenal H – Tottenham (1), Ú – Man.City (3), H – Middlesbrough (3), H – Everton (3), Ú - Derby (3), H – Leeds (1), Ú – Newcastle (1), Ú – Spouthampton (1).

Ipswich: Ú – Sputhampton (1), H – Newcastle (1), Ú – Middlesbrough (1), H – Coventry (3), Ú – Charlton (3), H – Man.City (3), H – Liverpool (0), Ú - Derby (1).

Sunderland: H – Leeds (1), Ú – Middlesbrough (1), H – Tottenham (3), Ú – Coventry (1), H – Newcastle (3), Ú – Southampton (1), H – Charlton (3), Ú – Everton (3).

Leeds: Ú – Sunderland (1), H – Southampton (3), Ú – Liverpool (0), Ú – West Ham (1), H – Chelsea (3), Ú – Arsenal (1), H – Bradford (3), H – Leicester (3).

Liverpool: H – Man.Utd (1), H – Leeds (3), Ú – Everton (3), H – Tottenham (3), H – Chelsea (3), Ú – Coventry (3), Ú – Bradford (3), H – Newcastle (3), Ú – Ipswich (3), Ú – Charlton (3).

Leicester: Ú – Charlton (0), Ú – Aston Villa (0), H – Coventry (3), H – Man.City (3), H – Middlesbrough (3), Ú – Newcastle (0), H – Tottenham (1), H – Aston Villa (1), Ú – Leeds (0).

Southampton: H – Ipswich (1), Ú – Leeds (0), Ú – Chelsea (0), Ú – Aston Villa (1), H – Sunderland (1), Ú – Newcastle (1), Ú – West Ham (0), H – Man.Utd (0), H – Arsenal (1).

Chelsea: H – Middlesbrough (3), Ú – Derby (3), H – Southampton (3), Ú – Tottenham (1), H – Charlton (3), Ú – Liverpool (0), Ú – Leeds (0), H – Everton (3), Ú – Man.City (1).

Samkvæmt þessari spá þá yrði lokastaðan í deildinni á þessa leið:

1. Manchester United 88. stig.
2. Liverpool 74. stig.
3. Arsenal 70. stig.
4. Sunderland 64. stig.
5. Leeds 62. stig.
6. Ipswich 62. stig.
7. Chelsea 59. stig.
8. Leicester 56. stig.
9. Southampton 49. stig.

Eflaust eiga menn eftir að þrátta um einstaka leiki og stig til eða frá. Þetta ætti þó að verða til þess að menn sjái restina af tímabilinu skýrar fyrir sér og það sem sérstaklega vekur athygli er hversu mörg stig eru í pottinum í innbyrðis viðureignum þessara liða. Það er því greinilega hörð barátta framundan um Evrópusætin. Auðvitað vona Púllarar að þessi spá gangi eftir og við náum að landa öðru sætinu, en eins og áður hefur sýnt sig þá er mikið eftir og stigunum þarf að landa, sama hvað mótherjinn heitir.

Spekingarnir spáðu því að Liverpool og Arsenal myndu keppa til úrslita um enska F.A. bikarinn og að þar myndi Liverpool fara með sigur af hólmi í hörkuleik.

Í UEFA bikarnum spáðu menn því að Barcelona myndi slá út Liverpool og mæta Kaiserslauten í úrslitaleik. Þar færu Börsungar með sigur af hólmi.

Í Meistaradeildinni voru ekki eins skýrar niðurstöður. Allir voru reyndar sammála um að Valencia myndi ryðja Arsenal úr vegi, menn voru líka á því að Deportivo myndi sigra Leeds. Valencia myndi síðan vinna Deportivo í undanúrslitum. Hinum megin bjuggust menn við því að Real Madrid færi áfram, en mjótt var á mununum hjá Bayern og Man.Utd. Þar var naumur meirihluti fyrir því að þeir síðarnefndu færu áfram í undanúrslitin. Þar myndu þeir þó mæta öfjörlum sínum og detta út gegn Real Madrid. Lokaniðurstaðan var svo sú að Real Madrid myndi vinna Meistaradeildina annað árið í röð.