Núna rétt áðan lauk leik Hollendinga og Portúgala í undanúrslitum EM2004. Þetta var magnaður leikur og án efa sá besti í keppninni fyrir utan kannski Tékkland - Holland sem að var náttúrlega bara alveg gargandi snilld með meiru..!

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið áttu sín færi og enginn varnarbragur á liðunum eins og oft vill verða í svona þýðingarmiklum leikjum. Fyrsta markið kom á 26. mínútu. Þá stangaði Cristiano Ronaldo tuðruna í netið fyrir Portúgala eftir hornspyrnu. Eitt - núll. Ég var mjög ánægður með það enda er ég búinn að halda með Portúgal og reyndar Tékklandi líka frá byrjun á þessu móti.

Leikurinn var mjög hraður fram að leikhléi og Hollendingar áttu gott færi en negldu yfir markið. Svo flautaði ágætur dómari leiksins, Anders Frisk til hálfleiks.

Bæði lið komu á fullu í seinni hálfleikinn og sumir leikmenn voru eins og vinnuvélar. Þá vil ég sérstaklega nefna Cristiano Ronaldo og Edgar Davids. Ronaldo var bæði mjög hraður þegar hann var með boltann og svo vann hann til baka alveg hreint á milljón og var að mínu mati maður þessa leiks. Davids var alveg að fara á kostum á miðjunni. Hann vann nær alla skallabolta þrátt fyrir að vera mjög lítill og bara gjörsamlega átti miðjuna og skapaði mikla hættu fram á við.

Á 59. mínútu fengu Portúgalir hornspyrnu. Þeir tóku hana stutt og boltinn var sentur á Maniche sem að tók hann á vítateigshorninu og þrumaði honum efst í hægra hornið, stöngin inn. Snúningurinn var rosalegur og van Der Sar átti aldrei möguleika í boltann. Hann var öskuillur af því að það mætti enginn Maniche og varnarmennirnir voru mjög dofnir. Tvö - núll.

Svo sóttu Hollendingar meira og áttu sendingu fyrir markið sem að Jorge Andrade varnarmaður Portúgala klúðraði inn í eigið mark. Boltinn fór yfir Ricardo og inn. Tvö - eitt. Þetta mark gaf Hollendingum von en þeim tókst ekki að skora. Þeir fengu aukaspyrnu í blálokin og ég vil meina að þeir eigi betri spyrnumenn en Pierre van Hojjdoink (stafs.) Hann negldi beint í varnarvegginn. Virkilega slakt.

2-1 endaði þessi frábæri knattspyrnuleikur og ég held að þetta hafi verið alveg sanngjarnt og Hollendingar geti verið sáttir við að tapa ekki stærra því að Portúgalar fengu færin í kvöld. Ég held svo að Tékkar vinni Grikki á morgun og mæti Portúgölum þann 4. júlí í úrslitaleiknum sjálfum. Hvernig það fer er erfitt að segja en ég vona að Portúgal hafi þetta.

kv. datoffy..