Gerard Houllier hefur gagnrýnt harðlega leikjaniðurröðunina fyrri part apríl en samkvæmt henni þarf liðið að spila fjóra leiki á átta dögum frá 8. til 16. apríl. Útileikurinn gegn Ipswich var settur á þriðjudaginn 10. apríl, aðeins tveimur sólarhringum eftir undanúrslitaleikinn gegn Wycombe Wanderers í FA-Cup. Síðan leikur Liverpol við Leeds heima á föstudaginn langa, 13. apríl, og síðan gegn Everton á útivelli 16. apríl.

Houllier segir það ósanngjarnt að leggja svona mikið á liðið á jafn mikilvægum hluta tímabilsins og mun leita aðstoðar stjórnar úrvalsdeildarinnar við að finna annan tíma fyrir útileikinn geng Ipswich. “Ég er ekki sáttur við þessa niðurröðun. Ég ætla ekki að láta fara með leikmenn mína á sama hátt og fólk fer með hesta. Hvernig er hægt að ætlast til þess að leikmaður leiki 8., 10., 13. og 16. apríl? Ég er tilbúinn til að gæta hagsmuna leikmanna minna. Ég hef áhyggjur af þeim og vil gæta velferð þeirra.”