Það er kannski orðið svolítið síðan en ég ætla að skrifa aðeins um þennan leik sem ég fór á um daginn.
Leikurinn fór ekki vel af stað og fótboltinn í fyrri hálfleik ekki mjög fallegur. Helst bar til tíðinda peysutog Gulla Jóns og hættuleg aukaspyrna frá Halla Ingólfs.
Eitt markvert gerðist í fyrri hálfleik og var það fyrsta mark Rikka Daða í deildinni í ár. En því miður í vitlaust mark. Hornspyrna kom fyrir og Andri Steinn dekkaði illa einn af betri mönnum vallarins, Reyni Leósson sem skallaði að marki og Rikki átti þessa líka svaka hælspyrnu í markið. Vel var hægt að koma í veg fyrir markið og staðan hefði með réttu verið jöfn í hálfleik. Óli Þórðar vildi reyndar sjá Hans Fróða fjúka út af með rautt, kannski réttmætt en þá átti Stefán Þórðarson að fara út af líka. Tæklingarnar hans voru enn verri og auk þess sló hann Andra Stein í andlitið þegar boltinn var ekki nálægt. Ömurlegur línuvörður og enn verri dómari gerðu ekkert í málinu. Seinni hálfleikur fór í gang þegar Gunnar Sigurðsson fauk út af með rautt eftir að hafa tæklað Stefán gróflega utan teigs. Réttur dómur, líklega sá eini í leiknum. Haraldur I. skaut í stöng úr aukaspyrnunni. Skagamenn fengu horn skömmu síðar og skoraði Stefán Þórðar með skalla. Eftir frekar leiðinlegan bolta eftir það sigruðu Skagamenn frekar sanngjarnt 0-2.
Til að enda þetta ætla ég að renna yfir nokkra leikmenn í báðum liðum.
Ríkharður Daðason. Spilaði ekki eins vel og á móti Víkingi. Sterkur að taka á móti boltanum og skýla honum og skila honum aftur en sýndi fátt annað í leiknum. Fór meiddur af velli.
Þorvaldur Makan. Fyllir ágætlega í skarð Gústa Gylfa en átti ekki góðan dag á móti ÍA. Höfuðmeiðsl áttu kannski sökina en á heildina litið átti Fram ekki góðan leik.
Andri Steinn. Alltof óöruggur með boltann. Slæmur dagur, hefði átt að fara út af í hálfleik.
Fróði Benjaminsen. Átti góða spretti en náði sér ekki vel á strik. Maður með skap og sterkar tæklingar.
Hans Fróði. Þarna er á ferðinni sterkur leikmaður og með bestu miðvörðum á Íslandi í dag. Fullgrófur í þessum leik.
Gunnlaugur Jónsson. Ofmetnasti leikmaðurinn í deildinni að mínu mati. Valinn í landsliðið þegar atvinnumennina vantar, alltaf í liði ársins og svona. Kann alveg að dekka en er óöruggur með boltann, óöruggur í að skalla boltann. Ekki þessi frábæri leikmaður sem allir tala um.
Reynir Leósson. Einn af fáum sem átti góðan leik. Mun betri en Gunnlaugur og á frekar heima í landsliðinu en hann. Einnig mun yngri og á eftir að bæta sig.
Haraldur Ingólfsson. Var með markahæstu mönnum í norsku 1. deildinni sem er greinilega lélegri en Landsbankadeildin. Fyrir utan góðar spyrnur og varnarhlutverk sitt gerði hann lítið. 34 ára, kannski kominn af léttasta skeiði, hver veit? Var bestur með Skagamönnum kringum '95 þegar þeir höfðu yfirburði.
Stefán Þórðarson. Ekki mikill markaskorari. Kannski grimmur og sterkur en lélegur með boltann og að hlaupa. Alltof grófur, fáránlega grófur. Skoraði mark og gerði það vel en átti engan stórleik.
Grétar Rafn. Jafn góður og ég hélt. Var í framlínunni, sívinnandi, góður með boltann, getur alltaf sólað andstæðinginn. Stór og sterkur fyrir utan það. Mun betri en Stefán Þórðar. Á fyllilega heima í atvinnumennsku og markið gegn Brasilíu var engin tilviljun.

Boltinn lofar ekki góðu þetta vorið en batnar vonandi þegar líður á tímabilið.