Japaninn, Hidetoshi Nakata, hefur hótað því að yfirgefa herbúðir Roma fái hann ekki sæti í byrjunarliði liðsins á næstunni. Nakata hefur átt erfitt uppdráttar eftir komuna fyrir rúmu ári síðan og hefur mátt verma tréverkið löngum stundum, enda samkeppnin mikil í liðinu og staða Nakata erfið, þar sem hann spilar sömu stöðu og gullkálfur liðsins, Francesco Totti.

“Ég skil það mætavel að Capello eigi erfitt með að breyta liði sem vinnur alla leiki. En ef ég held áfram að vera fyrir utan hópinn næstu einn til tvo mánuði, þá fer ég alvarlega íhuga það að fara fram á sölu.

”Það fæst ekkert ókeypis hér, það er gríðarleg samkeppni milli manna og við erum að berjast innbyrðis hvern einasta dag til vinna okkur sæti í byrjunarliðinu. Þetta er þreitandi. Ég vill spila meira, það er á hreinu". sagði Nakata.

Nakata horfir fram á enn meiri samkeppni á næstu leiktíð þegar að Antonio Cassano gengur til liðsins. Þar sem Totti er númer eitt, þá verður Cassano líklega númer tvö í stöðu sóknartengiliðs og Nakata verður þriðji í röðinni. Parma, AC Milan og Inter hafa öll verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegir kaupendur.