Til hamingju Milanistar um allt land - titillinn er kominn heim.
Þrátt fyrir gallsúrt brottfall úr Meistaradeildinni tókst Milan að halda haus í Serie A og klára mótið - með þónokkrum stæl því þeir lögðu eina liðið sem gat mögulega haft af þeim titilinn, AS Roma, á San Siro fyrir framan húsfyllir af heimamönnum og tryggðu þannig 17 Scudettoinn þegar tveimur umferðum var ólokið. Eftir tímabilið stendur að Ricardo Iseczon dos Leite, a.k.a. Kaká, er eitt mesta efnið í boltanum í dag og hann tilheyrir okkur! Reyndar er hæpið að tala um efnilegan leikmann í þessu samhengi því hann var einfaldlega á meðal hinna bestu - Rivaldo átti sér séns og datt í vitleysuna (hver hefði séð hann fyrir sér hjá Bolton lol) og Rui Costa vermir eikina á hliðarlínunni leik eftirleik. Rifjum líka upp að Kaká er fæddur 1982. OK!?!
Þegar þetta er skrifað liggur fyrir að Jaap Stam er genginn til liðs við Milan og verður vörn hinna rauðsvörtu næsta vatnsþétt á næsta tímabili. Nesta-Maldini-Stam? Spilum bara 3-4-3, ekki málið ;) Ef Dabbi Oddsson væri pólitíkus á Ítalíu myndi hann setja lög gegn þessum samruna. Vikash Dhorasoo frá Lyon er heldur ekki amaleg viðbót við miðjuna enda þessi frábæri leikmaður ein helsta ástæða þess að Olympique Lyon eru uþb að tryggja sér franska titilinn 3. árið í röð. Eitt mál er enn ófrágengið og það er viðbót við framlínuna: Sheva, Pippo og Jon Dhl verða áfram en hinn efnilegi Marco Borriello verður að líkindum lánaður í eitt ár til að ná sér í leikreynslu. Viðbótin felst sennilega í Corradi (sorrí Laziomenn).
Að lokum - til þeirra sem eru enn að klóra sér í kollinum yfir heitinu á greininni: þetta er ítalska heitið sem hengt hefur verið á núverandi lið AC Milan og útleggst á ensku “The Marvellous” eða “the Wonder Boys”. Á sama hátt var Milan-lið Arrigo Sacchi kallað “the Immortals” og Capello-liðið var “the Invincibles”.
Forza Milan - vonandi fáum við að sjá Serie A í sjónvarpinu næsta haust.