Eins og oft hefur komið fram þá reynir Gérard Houllier ávallt af fremsta megni að eiga góð samskipti við landsliðsþjálfara leikmanna sinna. Sumir kjósa að láta leikmenn gera sér upp meiðsli þegar kemur að landsleikjum (nefnum engin nöfn en fyrsti stafurinn er Giggs) en Houllier vill styrkja þessi tengsl og virðist þá frekar geta verið með fingurna í þessum málum. Hann og Sven Göran Eriksson, enski landsliðseinvaldurinn, hafa rætt fram og til baka um mál Steven Gerrard. Það er enginn vafi á því að kappinn myndi byrja inná í öllum leikjum landsliðsins ef hann gæti, málið er ekki svo einfalt. Sven Göran og Gérard hafa komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að Steven getur einungis spilað annan af þeim leikjum sem framundan eru hjá Enska landsliðinu. Leikirnir sem um ræðir eru á móti Finnlandi og Albaníu, og verður að teljast harla líklegt að það verði leikurinn gegn Finnlandi sem verði fyrir valinu. Ekki skemmir það fyrir hjá stráknum að leikurinn verður spilaður á Anfield.