Í kvöld lauk 14. umferð Landssímadeildar karla.  Fram fóru fjórir leikir, í Árbænum tók Fylkir á móti Fram, þar sem heimamenn unnu 1:0, í Grindavík mættust heimamenn og Leiftursmenn, lokatölur þar 2:2, í Garðabæ skyldu Stjarnan og Keflavík jöfn, 1:1 og í Vesturbænum mættu Blikar KR-ingum í bráðfjörugum leik.
   Blikarnir byrjuðu að krafti og komust strax í nokkuð hættulega sókn, en KR-ingar voru fljótir að vakna til lífsins.  Þeir brutu sóknir gestanna á bak aftur og á 11. mínútu lék Guðmundur nokkur Benediktsson varnarmenn Breiðablikur grátt, komst einn á móti Atla í marki Blika og skoraði örugglega.  Um 20 mínútum síðar var Guðmundur felldur í teignum og réttilega dæmd vítaspyrna, sem Andri Sigþórsson skoraði úr.  Snemma í síðari hálfleik var Guðmundur kominn einn á móti auðu marki og átti einungis eftir að pota boltanum yfir línuna þegar brotið var á honum og aftur dæmt víti, og aftur skoraði Andri.  Vörn KR-inga sofnaði aldeilis á verðinum því þegar 10 mínútur voru eftir höfðu Blikarnir skorað 2 mörk og staðan orðin 3:2.  Blikarnir voru óheppnir að jafna ekki leikinn þegar Kristján Finnbogason varði góðan skalla gestanna.  KR-ingar áttu einnig hættulegt færi undir lok leiksins þegar Einar Þór Daníelsson komst einn á móti Atla Knútssyni markverði en Atli varði skot hans.  Lokatölur 3:2.
                
              
              
              
               
        



