Gerard Houllier er fullkomlega sáttur við þann mannskap sem nú er samningsbundinn Liverpool. Hann var spurður um hvort hann hyggðist taka upp veskið og versla einhvern leikmann áður en fresturinn fyrir félagaskipti rynni út.

“Ég er mjög ánægður með liðið sem ég er með í höndunum, ég vonast líka til þess að vera kominn með þrjá ”nýja“ leikmenn í þeim Patrik, Jamie og Vegard. Þeir gætu allir farið að banka á dyrnar bráðlega”.

Þeir meiðslahrjáðu Jamie Redknapp, Patrik Berger og Vegard Heggem ættu allir að fara að sjást bráðlega í leikjum með varaliðinu, og jafnvel er búist við að það verði á næstu tveim vikum sem það gerist. Það er engin spurning að það á eftir að styrkja hópinn verulega í lokabaráttunni, hvernig sem þeim svo tekst að koma sér í liðið.