Frá og með næsta sumri verður ærslafengnum fögnum mætt af meiri skilningi en áður. Leikmenn fá t.d. ekki gult spjald fyrir það að klæða sig úr treyjunni þegar þeir fagna marki. Allt á þó sín takmörk og fögnin mega ekki fela í sér dónaskap eða ögrun gagnvart mótherjanum. Dómarar skulu taka fastar á peysutogi og var löngu kominn tími til. Leikmenn fá þó ekki undantekningalaust gult spjald fyrir peysutog.
Það er Alþjóða knattspyrnuráðið - The International Football Association Board - sem leggur þetta til en ráðið fer með allar breytingar á knattspyrnulögunum og kveður á um áherslubreytingar innan þeirra.
Ráðið ræddi líka hvort færa eigi fríspark fram um 9,15 metra ef brotlegi aðilinn þvælist fyrir framkvæmd spyrnunnar. Ráðið vill frekari tilraunir með þetta þrátt fyrir prufukeyrsluna í enska boltanum í vetur.
Af öðrum samþykktum má nefna að gullmarkið svk. var tekið inn í lagasafnið og aðstoðarmenn þjálfara fá leyfi til að fara að hliðarlínunni og kalla leiðbeiningar til leikmanna. Félagsmerki og auglýsingar í marknetunum eru bönnuð hér eftir sem hingað til.
Breytingarnar eiga að taka gildi 1. júlí en KSÍ hefur yfirleitt miðað við upphaf Íslandsmóts.