Fréttir af KR KR-ingar vita það að í framtíðinni geta íslensk lið grætt mjög á ungum og efnilegum boltaspörkurum. Þetta er tilkomið með nýja félagaskiptakerfinu í Evrópu. Þess vegna skrifuðu KR-ingar undir samninga við tvo af efnilegustu knattspyrnumönnum sínum, Magnús Már Lúðvíksson og Egil Atlason, þeir skrifuðu undir þriggja ára samning við KR. Á heimasíðu KR má finna mjög athyglisverða tölfræði: Frumraun þeirra beggja með mfl. var í leik gegn Leikni í Deildabikarnum 1999. Báðir skoruðu sín fyrstu mörk í leik gegn Reyni S. og báðir léku sinn fyrsta Evrópuleik gegn Birkirkara á Möltu í fyrra.



KR vill fá til sín nýsjálenska varnarmanninn Che Bunce sem lék með Breiðabliki 97-99. Hann lék 54 leiki með Blikunum í keppnum á vegum KSÍ (deild, bikar og deildabikar) og skoraði fjögur mörk.



Valsmenn komu á óvart er þeir lögðu KR að velli í fyrsta leik liðanna í Reykjavíkurmótinu. Lokatölur urðu 2-1 fyrir Val og voru það þeir Matthías G. og Ármann Smári sem skoruðu mörk Vals, en Egill Atlason hélt upp á nýjan samning með því að klóra í bakkann.