Leeds-Real Madrid Eins og alltaf þegar Real Madrid spilar var þessi leikur frábært skemmtun, fullt af mörkum og illa nýttum færum en leikurinn fór
3-2 fyrir heimamenn í Madrid og mega þeir vera ánægðir með að geta hangið á sigrinum en Leeds liðið spilaði mjög vel í þessum leik. Það skyggir reyndar mikið á sigur Real að þegar Raul skoraði fyrsta mark sitt í leiknum, en hann gerði tvö, þá gerði hann það með hendinni og er óhætt að segja að Maradonna geti verið stoltur af pilt en þetta hefur ekki verið gert eins laglega síðan Maradonna gerði þetta 1986 í Mexíco. Þetta var svo augljóst að maður skilur ekki hvernig annars góður dómari leiksins gat ekki séð þetta, svo ekki sé talað um aðstoðardómarann á línunni. Það sem er mest svekkjandi við þetta er að dómaramistökin gegn Man. Utd. um helgina sitja enn fast í manni og er þetta þess vegna frekar sárt.
Alan Smith kom Leeds yfir á 6 mín. eftir frábæran undirbúning Mark Viduka. Real tóku miðju og sóttu strax fram og náðu sér í aukaspyrnu niðri við endalínu á vinstri kantinum og Figo sendi boltan inn í teig þar sem Raul sló boltan inn. Eftir þetta róaðist leikurinn smá og hvorugt liðið náði að skapa sér gott færi þangað til Kewell fór illa með Geremi á vinstri kanntinum og sendi góðan bolta fyrir en Smith náði ekki að stýra boltanum nóg vel með hausnum frá markteig og Cesar í marki Real varði vel. En það var svo rétt fyrir hlé að Figo sótti sem oftar að Matteo og sendi fyrir, boltinn skopaði einu sinni og skipti einhvern vegin algjörlega um stefnu og skaust í markið. Sumir vilja halda að það hafi verið ójafna á vellinum sem boltinn hafi skopað svona skemmtilega á, en þessi mörk tvö voru dæmi um þá miklu heppni sem virðist oft elta þau lið sem eru hvað best hverju sinni.
Síðari hálfleikurinn var bráðfjörugur, eins og sá fyrri hafði í raun líka verið. Liðinn héldu boltanum og sóttu til skiptis og náðu að skapa sér nokkur ágætis færi. Færi Leeds voru opnari en Real liðið hættulegra með skotum fyrir utan teig. Leeds náði að jafna eftir að Kewell fiskaði horn og Harte sendi góðan bolta inná markteig þar sem Viduka kom einn og óvaldaður og skallaði boltan í gegnum klof Cesars í markinu. En eins og svo oft áður voru Real fljótir að svara fyrir sig, Figo sendi boltan fyrir og nú náði Raul að skora með skalla, en hann var illa dekkaður af annars mjög góðum David Batty.
Það er óhætt að segja að þetta hafi verið frábær leikur og er ekki að sjá annað en að bæði lið séu mjög sterk þessa dagana og ekki ólíklegt að Real vinni keppnina, en ég hef enga trú á því að Leeds geti það!