Eins og við greindum frá í gær þá sagði Fatih Terim af sér sem þjálfari Fiorentina í gær. Fiorentina menn voru ekkert að eyða neinum tíma í vitleysu heldur réðu þeir Roberto Mancini samdægurs og mun hann því ekki spila meira með Leicester í vetur, sem eru ágætis fréttir fyrir Arnar Gunnlaugsson. En það er samt ekkert víst að Mancini geti stýrt Fiorentina liðinu þrátt fyrir að hann hafi verið ráðinn þjálfari liðsins.

Það er nefnilega ólöglegt fyrir þjálfara að stýra tveim liðum í Serie A á sama tímabili, en eins og menn muna var Mancini aðstoðarmaður Sven Göran Eriksson hjá Lazio. Hann er ennfremur ekki kominn með þjálfaraskírteini sem leyfir honum að vera aðalþjálfari liðs í Serie A, þannig að það verður gaman að sjá hvernig þeir ætla að leysa þetta.

Forráðamenn Fiorentina segjast þó vera bjartsýnir á að Mancini verði mættur á hliðarlínuna innan skamms, annars gefa þeir honum bara einhvern annan titil og gera lítið úr lögunum.
__________________________