Í dag kemur í ljós hvort Þórður Guðjónsson fer til Derby eður ei. Talið er að hann gangi frá samningi við félagið sem er sambærilegur samningi Leeds við Robbie Keane eða að Þórður verður lánaður út tímabilið með fyrsta kauprétt í huga í sumar. Verða þetta að telja góð tíðindi fyrir Derby sem vantar sóknarmann en þeir skora lítið þessa dagana og fá reyndar líka lítið af mörkum á sig þannig að nú gætu þeir kannski farið að vinna fleiri leiki og tryggja stöðu sína í deildinni. Þetta eru ekki síður góðar fréttir fyrir Þórð og íslenska landsliðið vegna þess að Þórður hefur lítið fengið að spila á Spáni og þarf nauðsynlega að komast til félags þar sem hann fær mikið að spila og komast í góða leikæfingu.