Það voru ótrúlegar myndir sem sáust í Olíssporti í gær úr leik SS Lazio og Chelsea í Meistaradeild Evrópu. Hinn júgóslavneski varnarmaður Rómarliðsins, Sinisa Mihajlovic, lét heldur betur að sér kveða í þessum leik og það með neikvæðum formerkjum, svo ekki sé fastar að orði kveðið! Mihajlovic virðist eiga Adrian Mutu, hinum rúmenska framherja Chelsea, einhverjar skuldir að gjalda því framkoma hans gagnvart Mutu var ótrúleg: eftir að hafa straujað rúmenann niður fylgdi hinn vitfirrti Júkki því eftir með bylmingssparki í fótleggi hins liggjandi mótherja. Slíkt verðskuldar rautt spjald því reglur harðbanna aðför að liggjandi manni. En dómarinn sá ekki atvikið og lét það óátalið. Skömmu síðar hrækir svo Mihajlovic stærðar slummu í andlit Mutu - önnur rauðspjaldssök, aftur án þess að dómarinn sjái til. En Sinisa Mihajlovic lét ekki hér staðar numið heldur náði sér í 2 gul spjöld með brotum á Damien Duff og fór loksins loksins af velli með löngu tímabært rautt spjald á bakinu. Réttlætinu verður þó fullnægt af UEFA því eins og þegar hefur komið fram náðist öll tröllheimskan á mynd og er líklegt að Mihajlovic fái 5 leikja bann fyrir. Síst of mikið, ef þið spyrjið mig. Ég man bara ekki eftir annarri eins frammistöðu í fljótu bragði og sást í þessum leik. Ég veit ekki hvernig jafn streit gæji og Roberto Mancini, þjálfari Lazio, fær sig til að hafa þetta nöttkeis í liðinu?!? Enda baðst Mancini afsökunar á framferði Mihajlovic eftir leikinn.
Er einhver sem treystir sér til að verja Mihajlovic eftir þennan leik? Man einhver yfirhöfuð eftir svona framkomu í fótbolta á þessu leveli?! Framkoma Arsenal-manna um daginn gegn United kemur upp í hugann… En endilega sendið inn svar ef þið munið eftir svona fávitahætti á vellinum sem ég er að gleyma - því ég vil meina að þetta sé fyrir metabækurnar.
Forza Milan - Jonzi