13. umferð Landssímadeildarinnar í knattspyrnu hófst í kvöld með fjórum leikjum.  Í Keflavík unnu Eyjamenn góðan sigur á Keflvíkingum, 2:1.  Steingrímur Jóhannesson kom gestunum yfir strax á 10. mín. leiksins.  Þannig var staðan í hálfleik.  Keflvíkingar komu ákveðnir til síðari hálfleiks og jöfnuðu leikinn á 67. mín..  Rétt undir lok leiksins skoraði Hlynur Stefánsson og tryggði Eyjamönnum 1:2 sigur.
   Í Laugardalnum áttust við Framarar og botnlið Stjörnunnar.  Framarar komust yfir eftir 16 mín. leik og þannig var staðan í hálfleik.  Stjörnumenn jöfnuðu á fimmtu mín. síðari hálfleiks og sjö mínútum síðar voru þeir komnir yfir.  Lokatölur voru 1:2.
   Uppi á Skaga mættu heimamenn Grindvíkingum.  Liðin voru í fjórða til fimmta sæti fyrir leikinn.  Grindvíkingar komust yfir á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 1:0 í hálfleik.  Þegar fimmtán mín. voru til leiksloka jöfnuðu heimamenn metin og komust yfir sex mín. síðar, lokatölur 2:1.
   Í Kópavogi skyldu Breiðablik og Fylkir jöfn, 0:0.  Blikar fengu kjörið tækifæri á 74. mínútu en þá fengu þeir dæmda vítaspyrnu en skotið fór yfir markið.
   Staðan í deildinni er þá þannig að Fylkismenn eru efstir með 26 stig eftir 13 leiki, Eyjamenn koma næstir með 23 stig en hafa leikið 14 leiki, KR-ingar eru í þriðja sæti með 21 stig og 12 leiki, Skagamenn eru einnig með 21 stig en hafa leikið 14 leiki, í fimmta sæti eru Grindvíkingar með 20 stig, Blikar og Keflvíkingar eru með 16 stig, Framarar með 15 og í fallsætunum eru Stjarnan með 10 stig og Leiftursmenn reka lestina með 7 stig.
                
              
              
              
               
        



