Saga Arsenal hófst fyrir u.þ.b. 105 árum síðan. Árið er 1886 og staðurinn er London. Nokkrir vélsmiðir úr hinni konunglegu hergagnaverksmiðju “Woolwich Royal Arsenal” ákveða að stofna knattspyrnulið. Rúbý var þá aðalsportið en fótbolti á hraðri uppleið. Þeir höfðu yfir að ráða fótboltavelli sem afmarkaðist af húsagörðum öðrumegin og litlum læk hinum megin. Þeir höfðu með töluverðri vinnu náð að safna digrum sjóði sem var 52 1/2 penní sem ætlunin var að nota í búninga og boltakaup. Fyrsti leikurinn var leikinn við lið Eastern Wanderers og vannst sá leikur 6-0. Á þessum tíma hét liðið Dial Square. Þannig hófst í raun saga þessa félags sem er eitt það stærsta í Englandi og var heillengi á árunum fyrir seinna stríð, stærsti klúbbur í heimi. Næsta skref var að skipta um nafn. Liðið hét nú Royal Arsenal. Aðstöðuleysi hindraði þessa stórhuga menn ekki í að halda áfram að spila knattspyrnu. Árið 1891 hafði félagið unnið allar bikarkeppnirnar í London og þar með skotist fram úr eldri liðum á borð við Tottenham og Milwall. En eitthvað vantaði uppá. Stóru liðin að Norðan voru enn of sterk fyrir “litla” Arsenal og það var ekki fyrr en atvinnumennsku var komið á hjá Arsenal að hjólin tóku að snúast af alvöru. Fljótlega voru umsvifin orðinn það mikil að liðið varð að eignast leikvang. Fyrsti völlurinn sem Arsenal eignaðist var Manor Field við Manor veg og gátu þeir þar byggt stúku sem þeir gátu verið stoltir af. En bakslag kom í þetta ferli þegar hin liðin í Norður Englandi sem hingað til höfðu viljað spila við Arsenal tóku nú uppá því að neita að spila við þá. Á þeim tíma var Arsenal eina liðið í S-Englandi sem hafði tekið upp atvinnumennsku og það fór illa í hin liðin. Enska knattspyrnusambandið snéri líka baki við þeim svo nú urðu þeir að róa á önnur mið. Reynt var að fá stóru liðin fyrir sunnan til þess að stofna deild en þeir vildu það ekki. Nú voru góð ráð dýr. Arsenal sá nú fram á dökka tíma. Þeir þurftu að leggja á sig löng og erfið ferðalög til að fá leiki og aðsókn á Manor Ground sem hingað til hafði verið mjög góð, eða um 12 þúsund manns á leik, fór ört dvínandi. Allt virtist vera á niðurleið þegar maður að nafni Henry Norris kom til bjargar. Sá var formaður Fulham og vildi hann yfirtaka Arsenal og flytja það til Craven Cottage sem er heimavöllur Fulham. Stjórn deildakeppninnar var mótfallinn þessari sameiningu svo nú hófst tími uppbyggingar hjá Norris og félögum.

Norris byrjaði á því að kaupa Alf Common sem var fyrsti leikmaðurinn til þess að kosta meira en 100.000 pund en hann breytti litlu og liði hélt áfram að tapa.

Sala á leikmönnum var óumflýjanleg því skuldir félagsins voru háar. Ekki hefur það verið til þess að styrkja liðið og árið 1912 gerðist svo hið óumflýjanlega, Arsenal féll í aðra deild eftir að lenda í neðsta sæti 1. deildar. Norris brást skjótt við og leitaði nú um allt að stað fyrir nýjan leikvang fyrir félagið. Norris hafði augastað á svæði í N- London þar sem Highbury reis svo síðar. Deildarstjórnin tók líka skýrt fram að N-London væri nægilega stórt svæði fyrir tvö lið Tottenham og Arsenal. Fyrsti leikurinn á Highbury var spilaður í apríl 1913. Leicester Fosse voru lagðir að velli 2-1. Þá hafði Norris breytt nafninu og nú hét liðið Arsenal. Segja má að Norrris hafi tekið fyrstu skrefin í þá átt að gera Arsenal að því stórveldi sem það var á árunum eftir stríð. Árið 1919 spilaði hann svo loks út stærsta trompinu. Stjórn deildarinnar hafði ákveðið að fjölga um tvö lið í efstu deild. Norris sá að ef Arsenal ætti að lifa af þá yrðu þeir að fá þennan séns. Norris sem nú var kominn með aðalstign og átti sæti á þinginu notaði öll sín áhrif til þess að koma Arsenal á framfæri. Hann benti mönnum á að Arsenal hafði lengi spilað í efstu deild og fannst því að þeir ættu sætið skilið. Það kom svo á daginn að Derby og Preston, tvö efstu lið 2.deildar fengu sitt sæti ásamt Chelsea og þá var komið að því. Hvort yrði það Arsenal eða Tottenham sem hlyti aukasætið? Norris hafði áunnið sér stuðning forseta deildarkeppninnar og hann flutti snjalla ræðu sem varð til þess að Arsenal hreppti hnossið. En lífið brosti ekki við Arsenal. Norris reyndi allt sem hann gat en bág fjárhagsstaða og slakur árangur gerðu illt verra. Takmark Norris um að gera Arsenal að stærsta liði Englands hafði ekki tekist og hann ákvað að segja af sér. Hann auglýsti eftir nýjum framkvæmdarstjóra og sagði svo af sér. En hugsjónir hans höfðu orðið stjórnarmönnum í Arsenal hvatning til að gera betur og næstu ár skyldu verða ár uppbyggingar.


Enskir Meistarar 1931 1933 1934 1935 1938 1948 1953 1971 1989 1991 1998 2002
(samtals 12 sinnum)
FA Cup 1930 1936 1950 1971 1979 1993 1998 2002 2003
(Samtals 9 sinnum)
Deildar bikarinn (Worth. Cup) 1987 1993
(Samtals 2 sinnum)
UEFA Cup 1970
Cup Winners Cup 1994
Kvenna meistarar 1993 1995 1997 2001 2002
Kvenna FA Cup 1993 1995 1998 2001
Kvenna Deildar bikar 1992 1993 1994 1998 1999 2000 2001
FA Youth Cup 1966 1971 1988 1994 2000 2001
FA Premier Youth deild 1998
FA Premier Academy u-17 2000
FA Premier Academy U-19 2002

(tekið að arsenal.is)