Ég var ekki alveg sammála honum Rafigi svo að hérna kemur my piece:

Líklegt byrjunarlið:

—————–Lehmann————— –

—-Lauren—Campbell—Keown—Cole—–

—- Ljungberg—Silva—Viera—Pires—-

———–Ber gkamp——Henry———–


Markmaður: Jens Lehman er kominn í staðinn fyrir gamla jálkinn Seaman. Hefur verið varamarkvörður þýska landsliðsins undanfarið og virðist ágætis kaup. Var samt soldið glannalegur á köflum í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Til vara eru Stuart Taylor og Rami Shaaban. Stuart Taylor gæti með tíð og tíma orðið toppmarkmaður, en sá þýski verður væntanlega milli stangana megnið af tímabilinu.
Einkunn: 8.0

Hægri bakvörður: Lauren virðist vera búinn að tryggja sér þessa stöðu þótt hann sé miðjumaður að upplagi og spili sem slíkur með Kamerún. Lauren hefur staðið sig ágætlega og er grimmur í návígum, en er kannski ekki alveg nógu glúrinn varnarmaður. Luzhny er farinn og því fátt um fína drætti ef Lauren meiðist eða fer í bann. Þeir eiga þó nokkra unglinga sem geta spilað þessa stöðu, og þá helst þýska unglinginn Moritz Volz, en þeir ösnuðust til að lána hann, man ekki hvert. Í neyð gæti Ray Parlour sennilega skilað þessari stöðu.
Einkunn: 7.5

Vinstri bakvörður: Ashley Cole er feykilega vinsæll meðal stuðningsmanna Arsenal þar sem hann er eini unglingurinn sem hefur náð að brjótast inn í aðalliðið síðustu árin, tókst að ýta út Brassanum Silvinho sem var þó að standa sig mjög vel. Cole er mikið efni og fastamaður í landsliðinu, gríðarlega fljótur og fylginn sér og ekki aðeins góður varnarbakvörður, heldur getur hann vel látið til sín taka þegar hann bregður sér í sóknina. Hann væri algjör toppbakvörður ef hann ætti ekki til að vera of grimmur á stundum og eiga soldið erfitt með skapið í sér. Það er hætt við því að hann verði í banni í einhverjum leikjum í vetur. Síðasta vetur var Giovanni Van Bronckhorst í vinstri bakverðinum þegar Cole naut ekki við, en núna er kominn nýr Fransmaður, Gael Glichy, sem við ættum að sjá eitthvað af.
Enkunn: 8.5

Miðverðir: Sol Campbell er frábær miðvörður og fastamaður í enska landsliðinu. Sterkur og fljótur klassavarnarmaður. Hann mun stjórna vörninni. Hvað hinn miðvörðinn varðar koma margir til greina þótt gamli vinnuhesturinn Martin Keown sé þar sennilega fremstur í flokki. Hann er svolítið kominn til ára sinna, en er ennþá mjög traustur varnarmaður. Pascal Cygan var yfirleitt fyrsti varamiðvörður í fyrra, en mörgum þótti hann ansi mistækur. Nú er búið að kaupa svissneskt undrabarn, Philippe Senderos og við gætum séð hann eitthvað í vetur. Þá hefur Kolo Toure líka verið að spila í þessari stöðu undanfarið vegna meiðsla aðalmannanna. Efast um að við sjáum Stepanovs aftur. Campbell og Keown eru fínt miðvarðarpar, en varamennirnir eru kannski ekkert alltof sterkir

Einkunn: 9

Hægri kantur: Ljungberg er maðurinn í þessa stöðu, fljótur og leikinn og duglegur við að æða inn í teiginn og skora. Var meiddur lengi vel í fyrra, en á þessa stöðu meðan hann er heill. Wiltord spilar þarna líka oft og stendur sig sæmilega, og stundum Ray Parlour, en hann er sennilega ekki nógu leikinn fyrir þessa stöðu miðað við núverandi leikstíl, á betur heima inni á miðjunni. Svo hafa menn verið að búast við því að mjög efnilegur unglingur, Jermaine Pennant, sem skoraði þrennu á móti Southampton undir lok tímabilsins í fyrr, fari að spila eitthvað þarna.
Einkunn: 8.5

Vinstri kantur: Þarna er einn af bestu vinstri kantmönnum heimsins, Robert Pires, en hann er algjör snillingur og mjög skapandi leikmaður. Ljungberg getur einnig tekið þessa stöðu, og þá eru einnig til vara Van Bronckhorst og Edu. Reyndar vilja sumir setja Pires í stöðuna hans Bergkamp og hafa Ljunberg vinstra meginn og Wiltord eða Pennant hægra megin. Geri þó ekki ráð fyrir slíkri breytingu í bráð.
Einkunn: 9.5

Miðjan: Þarna er fyrirliðinn Vieira auðvitað kóngurinn, einn af bestu varnarmiðjumönnum heimsins. Gilberto Silva virðist vera first choice til að vera með Vieira á miðjunni, en hann hefur ekki alveg staðið undir væntingum þótt hann sé ágætis miðjumaður. Edu, Van Bronckhorst, Parlour, Kolo Toure og Pires hafa líka allir spilað þarna eitthvað.
Einkunn: 9 (væri nálægt 10 ef Viera fengi toppmiðjumann með sér)

Sóknin: Henry er besti sóknarmaður deildarinnar og einn af þeim bestu í heiminum. Ótrúlega fljótur og leikinn, platar varnarmenn upp úr skónum, ávallt með markahæstu mönnum og leggur líka fullt af mörkum upp. Hinn sóknarmaðurinn er Bergkamp, sem er sennilega á sínu síðasta ári, skorar ekki mikið lengur, en er mjög lunkinn við að finna leikmenn og á eitraðar sendingar. Til vara eru Jeffers, sem hefur ekki náð að slá í gegn hjá Arsenal, Wiltord, sem spilaði meira á hægri kanti síðasta keppnistímabil, Kanu, sem virðist alveg hafa týnt sínum frábæru hæfileikum, og unglingurinn Jeremie Aladiere, sem gæti jafnvel komist upp fyrir Jeffers, Wiltord og Kanu í goggunarröðinni, en hann spilaði soldið í upphafi síðasta keppnistímabils og stóð sig ágætlega.
Einkunn: 9.5

Það er erfitt að spá fyrir um næsta tímabil. Arsenal hefur lítið styrkt liðið sitt, en á móti kemur að þeir halda öllum sínum mönnum, nema gamlingjunum Seaman og Luzhny, og liðið ætti því að vera vel samstillt. United hefur selt tvær af stjörnunum sínum, Beckham og Veron, Djemba Djemba lítur ekkert sérstaklega vel út, en það gæti verið að Cristiano Ronaldo og Kleberson slái í gegn. Það tekur þó yfirleitt erlenda knattspyrnumenn eitt ár eða svo að venjast hraðanum í enska boltanum. Chelsea hefur keypt mýgrút af góðum mönnum, en það er spurning hversu samstillt liðið verður eftir svona miklar breytingar. Ég held að Liverpool sé á niðurleið þar sem Houllier virðist ekki hafa hugmynd um hvernig eigi að búa til sóknarlið, en Newcastle er álíka sterkt og í fyrra, þegar þeir voru með í slagnum um titilinn lengi vel. Ég held að eins og síðast muni Arsenal og ManU slást um titilinn, og Chelsea og Newcastle taka næstu tvö sæti. Ef Chelsea heldur svo öllum mönnunum sínum, og Rússinn missir ekki þolinmæðina og stingur af, þá gætu þeir komið mjög sterkir til leiks tímabilið 04/05.

Annars hlakka ég bara til vetursins, og óska öllum keppinautum Arsenal bölvanlegu gengi! ;)